[sam_zone id=1]

Hylte/Halmstad komnar með bakið upp að vegg eftir 3-1 tap gegn Örebro

Hylte/Halmstad og Örebro mættust í dag í þriðja leik liðanna í undanúrslitum sænsku úrslitakeppninnar. Staðan í einvíginu var jöfn 1-1 en liðin höfðu unnið sitthvorn leikinn á heimavelli.

Hylte/Halmstad byrjaði leikinn í dag vel og náði fljótt forystu í fyrstu hrinunni. Hávörnin hjá liðinu var mjög góð og þær voru einnig að skila vel í sókninni. Örebro gafst þó ekki upp og héldu vel í við gestina. Hylte/Halmstad voru þó sterkari í hrinunni og unnu hana 25-22.

Önnur hrinan var einnig jöfn og spennandi eins og sú fyrsta og ljóst að bæði lið ætluðu sér sigur í leiknum. Sóknarleikurinn gekk betur í þessari hrinu hjá Örebro og náðu þær að sækja á fleiri mönnum. Hylte/Halmstad var á móti mikið að fara í gegnum Jónu en það þurftu fleiri að stíga upp fyrir Hylte/Halmstad í leiknum í dag. Örebro sigraði aðra hrinuna 25-23 og jafnaði þar með leikinn 1-1.

Leikurinn var áfram jafn en Örebro var þó ávallt með yfirhöndina, þær voru eins og áður segir að spila mjög góðan sóknarleik og dreifa spilinu vel. Hylte/Halmstad börðust þó vel en það nægði ekki til þar sem Örebro sigraði næstu tvær hrinur 25-20 og 25-19 og vann þar með leikinn 3-1.

Örebro eru því komnar í góða stöðu í einvíginu og þurfa nú einungis einn leik til að tryggja sig inn í úrslitaviðureignina. Hylte/Halmstad verður nú að vinna næstu tvo leiki til að halda tímabilinu á lífi.

Jóna Guðlaug átti eins og áður segir góðan leik í liði Hylte/Halmstad í dag en hún var stigahæst á vellinum með 19 stig sem dugði því miður ekki til sigurs í dag.

Nánari tölfræði úr leiknum má sjá hér.