[sam_zone id=1]

HK sigraði KA í oddahrinu eftir æsispennandi leik

KA og HK mættust í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki. Staðan var 1-1 og því um gríðarlega mikilvægan leik að ræða. Fyrir leik var það helst að frétta að Filip uppspilari KA manna var í leikbanni eftir rauða spjaldið sem hann fékk í leik liðanna í gær.
Í hans stað var gamla kempan Davíð Búi mættur í uppspilarastöðuna.

HK byrjaði leikinn betur og náðu fljótt forystu í fyrstu hrinunni. Greinilegt var að leikmenn KA voru að venjast því að spila með nýjum uppspilara. KA menn komust þó betur inn í leikinn þegar leið á hrinuna en HK héldu þó sínu striki og unnu fyrstu hrinu leiksins 18-25.

KA menn voru þó komnir í gang og þeir byrjuðu aðra hrinuna af miklum krafti. Sóknarleikurinn var mjög góður leiddir áfram af Miguel Mateo og HK átti í mestu vandræðum með að komast fram hjá sterkri hávörn heimamanna. KA leiddu 19-11 þegar Lúðvík Már fór í uppgjöf, HK náði að minnka muninn niður í eitt stig í þessari stöðu 19-18 og allt í einu kominn mikil spenna í hrinuna. KA voru þó sterkari á lokasprettinum og sigruðu eftir upphækkun 26-24.

Liðin héldu áfram að spila gott blak í næstu hrinum og ljóst að hvorugt liðið ætlaði sér að gefa neitt eftir. Það var einnig kominn mikill hiti í menn og fékk Ismar miðjumaður í liði HK á endanum að líta rauða spjaldið. HK menn voru sterkari í þriðju hrinunni og sigruðu hana 20-25.
Það fór hinsvegar allt í baklás hjá HK í fjórðu hrinunni og nýttu KA sér það og sigruðu hrinuna 25-17 og tryggðu sér oddahrinu.

HK byrjaði oddahrinuna betur og skoruðu tvö fyrstu stig hrinunnar. Eftir þetta skiptust liðin á stigum og var skipt um vallarhelming í stöðunni 8-6 fyrir HK. HK áttu þá góða skorpu og náðu að komast í 13-7 án þess að KA næði að svara fyrir sig. KA menn gáfust þó ekki upp og minnkuðu þeir muninn niður í 1 stig 12-13. Lengra komust þeir þó ekki og skoraði HK tvö síðustu stig leiksins og vann hrinuna 15-12.

HK unnu þar með gríðarlega mikilvægan sigur en þeir leiða nú einvígið 2-1 og þurfa einungis einn sigur í viðbót til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Atkvæðamestur á vellinum var Miguel Mateo í liði KA manna en hann skoraði 27 stig í dag. Besti maður vallarins var þó HK meginn en Theódór Óskar dró lið sitt áfram í dag með 26 stig og átti hann frábæran leik bæði varnar og sóknarlega.

Nánari tölfræði úr leiknum má sjá hér.