[sam_zone id=1]

Marienlyst komnir yfir í bronseinvíginu

Ævarr Freyr Birgisson og félagar í Boldklubben Marienlyst fengu í gær Middelfart VK í heimsókn í fyrsta leik liðanna í bronseinvíginu í Danmörku.

Fyrsta hrinan var jöfn til að byrja með og fylgdust liðin að þar til í stöðunni 9-8 fyrir Marienlyst. Middelfart skoruðu þá sex stig í röð og komust 9-14 yfir. Þeir héldu þeirri forystu þar til í stöðunni 17-22. Þá skoruðu Marienlyst sex stig í röð og náðu forystunni aftur. Marienlyst unnu fyrstu hrinuna eftir upphækkun, 26-24.

Marienlyst hófu aðra hrinuna af miklum krafti og komust 11-3 yfir. Þeir héldu þessu forskoti þar til í stöðunni 18-9 en þá tókst Middelfart að minnka muninn örlítið. Hrinunni lauk þó með 25-19 sigri Marienlyst og þeir komnir 2-0 yfir.

Liðin skiptust á að leiða þriðju hrinuna en Marienlyst voru þó með þægilegt fjögurra stiga forskot í stöðunni 18-14. Það var ekki nóg þar sem Middelfart unnu hrinuna 24-26.

Það var aldrei spurning um hvort liðið myndi vinna fjórðu hrinuna. Marienlyst voru mikið sterkara liðið alla hrinuna og unnu hana 25-15 og leikinn þar með 3-1.

Ævarr var í frelsingjastöðunni í leiknum í gær og átti ágætis leik. Hann var með 26 móttökur og voru 54% þeirra jákvæðar og 31% fullkomnar.

Vinna þarf tvo leiki til að vinna bronsið og er Marienlyst því aðeins einum sigri frá því. Næsti leikur liðanna er næstkomandi mánudag, 15. apríl, klukkan 19:30 að staðartíma (17:30 á Íslandi) og verður hann sýndur á VolleyTV.