[sam_zone id=1]

KA jafnar einvígið gegn HK með öruggum 3-0 sigri

KA og HK mættust í annað sinn í kvöld í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. HK hafði unnið fyrsta leik liðanna 3-1 í Fagralundi á þriðjudagskvöldið og KA því ólmir að hefna fyrir það tap á heimavelli sínum.

Leikurinn byrjaði þó á því að Filip uppspilar KA manna fékk að líta rauða spjaldið frá dómara leiksins áður en fyrsta uppgjöf hafi verið tekinn.
KA menn létu það þó ekki slá sig útaf laginu og voru þeir mjög öruggir í sínum aðgerðum í kvöld. Þeir voru t.d. að gera mun minna af mistökum heldur en í fyrsta leiknum og skilaði það þeim sigri í fyrstu hrinu 25-22.

Önnur hrinan spilaðist mjög svipað og sú fyrsta, jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en KA náði nokkura stiga forskoti um miðja hrinuna. HK lenti því aftur í því að vera að elta KA og þrátt fyrir að þeir hafi komið með nokkur áhlaup stóðst KA það alltaf og þeir unnu aðra hrinuna einnig 25-21.

HK gerði breytingu í byrjun þriðju hrinu þar sem Kristófer kom inn á miðjuna í stað Elvars sem hafði leikið fyrstu tvær hrinurnar. Þetta virtist gefa HK smá auka kraft og byrjuðu þeir hrinuna betur en KA menn. KA voru aftur byrjaðir að gera mikið af uppgjafarmistökum og mótakan var ekki eins sterk og hún hafði verið fyrr í leiknum. HK var í góðri stöðu 15-19 yfir.
Filip uppspilari KA manna fer þá í uppgjafareitinn og breytir stöðunni í 20-19 fyrir KA. Lokakaflinn var síðan æsispennandi þar sem hvorugt liðið neitaði að gefast upp. Að lokum voru það þó KA menn sem voru sterkari og unnu hrinuna 25-23 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstur á vellinum í dag var eins og oft áður Miguel Mateo leikmaður KA en hann skoraði 23 stig í dag. Hjá HK var það Benedikt Baldur sem lét mest að sér kveða en hann skoraði 10 stig í leiknum.

Liðin eru því jöfn í einvíginu 1-1 en næsti leikur á milli þessara liða fer fram á morgun kl. 16:00 í KA-heimilinu.

Nánari tölfræði úr leiknum má sjá hér.