[sam_zone id=1]

Aarhus endar tímabilið í sjöunda sæti

ASV Aarhus, lið Valþórs Inga Karlssonar, lék í gær sinn annan leik gegn VK Vestsjælland í einvígi liðanna um 7.-8. sætið í Danmörku.

Aarhus unnu fyrsta leik liðanna nokkuð sannfærandi, 3-0, og með sigri í leiknum í gær gátu þeir tryggt sér sjöunda sætið.

Fyrsta hrinan var mjög jöfn og var munurinn aldrei meiri en tvö stig þar til í lokin. Jafnt var í stöðunni 21-21en Aarhus skoruðu síðustu fjögur stig hrinunnar og unnu hana 25-21.

Önnur hrinan var mjög svipuð og sú fyrsta og fylgdust liðin að alveg frá upphafi hennar. Hrinunni lauk ekki fyrr en eftir upphækkun, 27-25, Aarhus í vil.

Aarhus hófu þriðju hrinuna af miklum krafti og voru fljótt komnir sjö stigum á undan Vestsjælland, 10-3. Vestsjælland minnkuðu muninn undir lok hrinunnar en það var um seinan og unnu Aarhus hana 25-21 og leikinn þar með 3-0.

Valþór Ingi hefur verið meiddur undanfarnar vikur og var því ekki með liðinu að þessu sinni.

Tímabilinu hjá Aarhus er því lokið og með þessum sigri tryggðu þeir sér 7. sætið.