[sam_zone id=1]

Sigur í síðasta heimaleik tímabilsins hjá Haching

Hristiyan Dimitrov og félagar í AlpenVolleys Haching II léku í gær sinn síðasta heimaleik á tímabilinu þegar þeir fengu TSV Grafing í heimsókn í þýsku annarri deildinni suður. Haching voru fyrir leikinn í 9. sæti deildarinnar á meðan Grafing voru í því öðru og var því búist við erfiðum leik.

Haching byrjuðu leikinn af miklum krafti og unnu fyrstu hrinuna með minnsta mun, 25-23. Grafing svöruðu því um leið og unnu aðra hrinuna 22-25. Þriðja hrinan var eign Haching allt frá upphafi og unnu þeir hana 25-16 en Grafing knúðu fram oddahrinu með 19-25 sigri í fjórðu hrinunni. Oddahrinan var gríðarlega spennandi en henni lauk með minnsta mun, 15-13, Haching í vil og unnu þeir leikinn þar með 3-2.

Með sigrinum jöfnuðu Haching við SV Schwaig í 6.-7. sæti deildarinnar með 34 stig eftir 23 leiki. Næsti leikur Haching og jafnframt sá síðasti á tímabilinu er næstkomandi laugardag, 13. apríl, þegar þeir mæta TGM Mainz-Gonsenheim á útivelli.