[sam_zone id=1]

Lube og Zenit í úrslitum annað árið í röð

Undanúrslitum Meistaradeildar karla lauk í gærkvöldi með tveimur leikjum.

Seinni leikir umferðarinnar fóru fram í gær og það voru Zenit Kazan og Perugia sem hófu leik í Rússlandi. Zenit unnu fyrri leikinn á Ítalíu 2-3 og voru því í góðri stöðu fyrir heimaleik sinn. Zenit stóðust pressuna og komust áfram í úrslitaleikinn með 3-1 sigri í æsispennandi leik. Í hinum leiknum mættust Lube og Skra en þar var spennan talsvert minni.

Lube valtaði yfir Pólverjana í fyrri leik liðanna og vann 0-3 sem þýddi að tvær hrinur myndu duga þeim í seinni leiknum. Þeir komust 2-0 yfir og tryggðu sér sæti í úrslitum en kláruðu leikinn með stæl og unnu hann 3-0. Lube er nú eina lið keppninnar sem hefur ekki tapað leik og mæta Zenit Kazan í úrslitaleiknum í maí.

Zenit Kazan eru ríkjandi meistarar og hafa unnið titilinn síðustu fjögur ár. Lube gæti hins vegar orðið fyrsta ítalska liðið til að vinna titil í 8 ár en síðan Trentino vann árið 2011 hafa rússnesk lið einokað keppnina.

Leikir gærdagsins

Zenit Kazan 3-1 Sir Colussi Sicoma Perugia (22-25, 25-23, 25-23, 26-24). Maxim Mikhailov skoraði 17 stig fyrir Kazan og Earvin Ngapeth bætti við 14 stigum. Aleksandar Atanasijevic og Wilfredo Leon voru allt í öllu hjá Perugia en Atanasijevic skoraði 24 stig og Leon 18.

Cucine Lube Civitanova 3-0 PGE Skra Belchatów (25-15, 25-20, 27-25). Osmany Juantorena skoraði 12 stig fyrir Lube og Yoandy Leal skoraði 11 stig. Mariusz Wlazly var stigahæstur í liði Skra með 11 stig.

Úrslitaleikir karla og kvenna fara fram í Berlín 18. maí næstkomandi á viðburði sem CEV kallar Super-Final. Þetta nýja fyrirkomulag kemur í stað Final Four helganna sem hafa verið spilaðar undanfarin ár og verður því algjör blakveisla í boði í Berlín. Áhugasamir geta nálgast miða hér en lítið er eftir af þeim 8.500 sætum sem keppnishöllin í Berlín hefur upp á að bjóða.