[sam_zone id=1]

EVA töpuðu fyrsta bronsleiknum

Unnur Árnadóttir og liðsfélagar hennar í Elite Volley Aarhus (EVA) fengu í gær Team Køge Volley í heimsókn í fyrsta leik liðanna um bronsið í dönsku úrslitakeppninni.

Køge tóku forystuna snemma í fyrstu hrinunni og voru nokkrum stigum á undan þar til um miðja hrinu. EVA jöfnuðu í 15-15 og komust yfir, 18-16. Køge skriðu hins vegar aftur fram úr og unnu hrinuna 23-25.

EVA voru mikið sterkara liðið framan af annarri hrinunni en Køge tókst hins vegar að jafna í 18-18. EVA skoruðu þá sjö af næstu átta stigum og unnu hrinuna 25-19.

Það gekk lítið upp hjá EVA í þriðju hrinunni og varð munurinn mestur 15 stig í stöðunni 9-24. Køge unnu hrinuna 12-25.

Køge virtust staðráðnar í að klára leikinn í fjórðu hrinunni þar sem þær leiddu hrinuna frá upphafi hennar. EVA tókst að jafna og loks komast yfir undir lok hrinunnar og þær unnu hana 25-22 og knúðu þannig fram oddahrinu.

Oddahrinan var ekki mjög spennandi. Munurinn var tvö stig í stöðunni 4-6 fyrir Køge og komust EVA ekki lengra. EVA tókst ekki að skora sóknarstig alla hrinuna og skoruðu Køge síðustu níu stig leiksins. Køge unnu hrinuna þar með 4-15 og leikinn þar með 2-3.

Unnur kom inn á í síðari hluta annarrar hrinunnar og lék restina af leiknum, fyrir utan lok þriðju hrinunnar. Hún skoraði fjögur stig í leiknum, þar af þrjú úr sókn og eitt úr hávörn.

Vinna þarf tvo leiki til að fá bronsið svo EVA á enn möguleika á að ná því. Næsti leikur liðanna er næstkomandi sunnudag, 14. apríl klukkan 16 að staðartíma (14 á Íslandi), og verður hann sýndur á VolleyTV.