[sam_zone id=1]

KA sannfærandi í Kópavogi

HK mætti KA í kvöld í fyrsta leik úrslitaeinvígis Mizunodeildar kvenna.

KA vann Völsung í undanúrslitum og HK hafði betur gegn Aftureldingu en bæði einvígin fóru 2-0. Liðin mættust því í úrslitum og fór fyrsti leikurinn fram í Fagralundi í Kópavogi.

KA byrjaði fyrstu hrinu frábærlega og komst 1-7 yfir. Móttaka HK var ekki góð og spilið afar einhæft. Þetta nýtti KA sér og góð hávörn þeirra gerði HK erfitt fyrir. KA valtaði algjörlega yfir HK sem þurfti að taka sitt seinna leikhlé í stöðunni 3-13. HK-ingar tóku þá aðeins við sér og minnkuðu muninn í 7 stig, 7-14. KA setti einfaldlega aftur í fluggírinn og staðan orðin 7-20 fyrir KA.

Lok hrinunnar voru heldur tíðindalítil en KA vann hrinuna sannfærandi 13-25. Jafnara var í upphafi annarrar hrinu og skiptust liðin á stigum til að byrja með. Fljótlega seig KA þó fram úr og HK tók leikhlé í stöðunni 5-10. KA hélt þessu forskoti stærstan hluta hrinunnar og HK átti engin svör við sterkum uppgjöfum KA. Aftur vann KA örugglega, 15-25, og leiddi 0-2.

Þriðja hrina var sú jafnasta hingað til og náði HK að halda í við KA sem hafði þó örlítið forskot framan af. HK komst svo yfir í stöðunni 14-13 og KA tók sitt fyrra leikhlé. KA sneri dæminu við og HK-ingar tóku sjálfir leikhlé í stöðunni 16-19. Tveir ásar frá Líneyju Ingu breyttu stöðunni í 20-21 og spennan var gríðarleg.

Í stöðunni 22-23 voru ótrúlegar sóknir og varnir hjá báðum liðum en KA skoraði stigið að lokum. Luz Medina skoraði svo ás fyrir KA og tryggði gestunum 22-25 sigur í hrinunni. KA vann leikinn þar með 0-3 og fer með 0-1 forystu í einvíginu norður á Akureyri.

Hjördís Eiríksdóttir skoraði 12 stig fyrir HK en í liði KA skoraði Helena Kristín Gunnarsdóttir 13 stig og Gígja Guðnadóttir bætti við 11 stigum. Næsti leikur fer fram á Akureyri laugardaginn næstkomandi og hefst hann klukkan 14:00. Þriðji leikurinn fer svo fram daginn eftir, einnig á Akureyri.