[sam_zone id=1]

HK unnu fyrsta úrslitaleikinn gegn KA

HK tóku í kvöld á móti KA í fyrsta leik úrslitaeinvígis Íslandsmóts karla.

KA menn eru ríkjandi Íslandsmeistarar en HK einokuðu titilinn í sex ár í röð áður en KA hömpuðu honum í fyrra. HK eru því eflaust staðráðnir í að ná honum aftur í Kópavoginn og komust í kvöld einu skrefi nær því.

KA menn hófu leikinn af miklum krafti og komust fimm stigum yfir í upphafi fyrstu hrinunnar, 2-7. KA voru með nokkurra stiga forskot allt þar til undir lok hrinunnar. Þeir leiddu 20-24 og virtust ætla að sigla þægilegum sigri í höfn en HK náðu þó að minnka muninn í 23-24. Lengra komust þeir ekki þar sem KA skoruðu næsta stig og unnu hrinuna 23-25.

Aðra hrinuna hófu HK betur og voru þeir fljótt fjórum stigum yfir. KA minnkuðu muninn og jöfnuðu í stöðunni 12-12. HK sigu hins vegar aftur fram úr og komust í 24-21. KA tókst að jafna í 24-24 en HK skoruðu síðustu tvö stigin og unnu hrinuna 26-24.

KA hófu þriðju hrinuna á því að skora fyrstu þrjú stigin en HK voru ekki lengi að svara þar sem þeir skoruðu næstu fjögur. Hrinan var gríðarlega jöfn og spennandi allt frá upphafi til enda og þurfti upphækkun til að útkljá hana. Liðin skiptust á að skora stig allt þar til í stöðunni 30-31 fyrir KA. Þá gerðu gestirnir tvenn mistök og hleyptu HK yfir. Síðasta stigið skoraði svo Ismar Hadziredzepovic, leikmaður HK, með hávörn á miðjunni. HK unnu hrinuna 33-31 og þeir því komnir 2-1 yfir.

Þetta virtist eitthvað slá KA menn út af laginu þar sem HK völtuðu yfir þá í upphafi fjórðu hrinunnar. HK komust í 8-3 og virtist allt ganga upp hjá þeim. KA minnkuðu muninn hins vegar í tvö stig í stöðunni 10-8 og var munurinn enn sá sami í stöðunni 16-14. HK skoruðu þá fjögur stig í röð, þar af þrjú úr hávörn, og komust í vænlega stöðu. KA minnkuðu muninn örlítið en það var um seinan og unnu HK hrinuna 25-21 og leikinn þar með 3-1.

Stigahæsti leikmaður HK í kvöld var Benedikt Baldur Tryggvason með 21 stig og hjá KA var Miguel Mateo Castrillo stigahæstur með 27 stig.

HK eru því komnir með 1-0 forystu í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Næsti leikur liðanna er næstkomandi föstudag, 12. apríl, klukkan 20 á Akureyri. Þeir sem sjá sér ekki fært að mæta í KA heimilið munu geta horft á leikinn á SportTV.