[sam_zone id=1]

Kærðu óíþróttamannslega hegðun vegna miðjufingurs

Fundur var í aganefnd Blaksambands Íslands vegna kæru sem barst eftir leik HK og Aftureldingar þann 30. mars í undanúrslitum úrvalsdeildar karla. Afturelding skilaði inn kæru eftir leikinn vegna atviks sem átti sér stað í leiknum en leikmaður HK gaf leikmanni Aftureldingar miðjufingurinn í miðjum leik.

Ismar Hadziredzepovic leikmaður HK og Piotr Kempisty leikmaður Aftureldingar áttust í orðaskiptum megnið af leiknum sem endaði með því að miðjufingurinn fór á loft í hita leiksins. Báðir leikmenn fengu gult spjald í leiknum fyrir hegðun sína en aðaldómari leiksins, Jón Ólafur Valdimarsson alþjóðlegur dómari Íslands, ákvað að láta gult spjald á leikmann HK nægja og eru Afturelding í raun að kæra þá ákvörðun.

Á heimasíðu Blaksambandins kemur eftirfarandi fram: “Efni kæru var vegna ósæmilegrar hegðunar leikmanns HK. Dómur aganefndar var eftirfarandi: Leikmaðurinn fékk gult spjald fyrir tiltækið. Kæran snýst því í raun um störf dómarans. Kærunni er því vísað frá.”

Aganefnd Blaksambandsins telur að ekki sé hægt að breyta ákvörðun dómarans um að gefa leikmanni HK aðeins gult spjald en stjórn Blaksambandins vill taka það skýrt fram að það sú hegðun sem átti sér stað í viðkomandi leik er með öllu óásættanleg. Í ljósi úrskurðar aganefndar mun stjórn BLÍ funda með dómaranefnd.