[sam_zone id=1]

Afturelding jafnar einvígið

Afturelding og HK mættust í öðrum leik liðanna í undanúrslitum í úrslitakeppni karla í kvöld. HK hafði unnið fyrri leik liðanna 3-0.

Afturelding voru enn án Radoslaw Rybak sem er frá vegna meiðsla og þá voru HK enn án Andreasar Hilmis Halldórssonar og Kristófers Björns Proppe sem eru einnig frá vegna meiðsla. Theódór Óskar Þorvaldsson, besti leikmaður HK á tímabilinu var einnig frá vegna meiðsla sem hann hlaut í fyrri leik liðanna.

Afturelding fór nokkuð vel af stað í leiknum og voru með ágætis tök á fyrstu hrinunni. Aftureldingu tókst mun betur að fylla í skarð Radoslaw Rybak í þessum leik en Aturelding var með yfirhöndina 16-15 undir miðja hrinu. Þá hrukku gestirnir hinsvegar í gang og tóku næstu 3 stig leiksins og komu sér í vænlega stöðu. HK reyndust sterkari aðilinn undir lokinn og fóru með sigur í fyrstu hrinu 25-23.

Afturelding fór einnig vel af stað í annarri hrinu og leiddu hana 11-8 í fyrsta leikhléi. Aftur hrökk HK í gang og náði að snúa hrinunni sér í hag og var staðan orðin 17-15 fyrir HK. Eftir að hafa verið yfir 24-23 misstu HK frá sér sigurinn og tókst Aftureldingu að stela sigri með þremur stigum í röð, 26-24.

Eftir hæga byrjun hjá Aftureldingu í þriðju hrinu þá fóru þeir loks í gang og voru ekki í miklum vandræðum í hrinunni sem lauk með öruggum 25-17 sigri Aftureldingar en Afturelding tók síðustu 6 stig hrinunnar.

HK reyndi að breyta til í fjórðu hrinu og var Lúðvík Már Matthíasson kominn á kantinn og hinn ungi Hermann Hlynsson í uppspilið. HK var í ágætist stöðu í leiknum 18-14 þegar heimamenn taka leikhlé. Afturelding tekur þá góðan kafla sem skilar þeim í 19-19 og tók þá við spenanndi lokakafli. Afturelding voru komnir í góða stöðu 24-22 eftir sóknarmistök hjá HK en HK náði tveimur stigum í röð og jöfnuðu leikinn 24-24. Afturelding hleypti þeim hinsvegar ekki frammúr sér og fóru að lokum með sigur 27-25.

Afturelding hefur því jafnað einvígið 1-1 og mætast liðin í oddaleik næstkomandi föstudag í Fagralundi.

Stigahæstur í leiknum í dag var Piotr Kempisty leikmaður Aftureldingar með 25 stig. Stigahæstur í liði HK var Benedikt Baldur Tryggvason með 15 stig.