[sam_zone id=1]

HK hafði betur í dramatískum leik

HK og Afturelding mættust í undanúrslitum í úrslitakeppni Mizunodeildar karla í dag en leikið var í Fagralundi.

Hjá HK vantaði þá Andreas Hilmi Halldórsson og Kristófer Björn Proppe sem voru báðir frá vegna meiðsla, hjá Aftureldingu vantaði hinsvegar Radoslaw Rybak sem hefur verið besti leikmaður Aftureldingar í vetur og einn besti leikmaður deildarinnar í vetur.

HK byrjaði leikinn mjög vel og náðu strax góðu forskoti í leiknum. Afturelding náði hinsvegar að halda í við HK sem fór þó með sigur í hrinunni 25-21.

Afturelding fór betur af stað í annarri hrinu en hleyptu þó HK inní leikinn en í stöðunni 12-11 meiðist Theódór Óskar Þorvaldsson leikmaður HK og varð hann að hætta leik. Afturelding nýtti sér þetta og virtust þeir ætla að ná í sigur í annarri hrinu en heimamenn gáfust aldrei upp. Það var svo hinn ungi Valens Torfi Ingimundarson sem kláraði aðra hrinu fyrir HK með frábæru smassi út á kannti. Valens hafði komið inn til að leysa Theódór af hólmi og gerði hann það með prýði.

Í þriðju hrinu fór svo hiti að færast í leikinn en leikmenn beggja liða áttu í orðaskiptum undir net og voru menn ósattir við fögn hvors annars. Þeir Ismar Hadziredzepovic (HK) og Piotr Kempisty (Afturelding) uppskáru báðir gult spjald fyrir samskipti sín á milli en báðir voru þeir ósáttir við framgöngu hvors annars. HK fór með sigur í þriðju hrinu 25-20 og unnur þeir því leikinn 3-0.

Stigahæstur í leiknum var Piotr Kempisty leikmaður Aftureldingar með 17 stig en stigahæstur í liði HK var Benedikt Baldur Tryggvason með 15 stig.

Liðin mætast að nýju á þriðjudaginn en vinna þarf tvo leiki til að komast í úrslit. Leikurinn á þriðjudaginn hefst kl 20:00 og fer fram í Varmá í Mosfellsbæ.

(mynd: A&R photos)