[sam_zone id=1]

Grétar Eggertsson nýr formaður BLÍ

Þingfulltrúar 47. ársþings BLÍ klöppuðu vel og innilega fyrir kjöri Grétars Eggertssonar í Íþróttamiðstöðinni í gær. Grétar tekur við af Jasoni Ívarssyni eftir 14 ár í formannssætinu.

Grétar Eggertsson var einn í framboði í embætti formanns BLÍ á ársþinginu sem haldið var í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gærkvöldi. Hann var því sjálfkörinn formaður BLÍ til tveggja ára með lófataki þingfulltrúa.

Um leið og Grétar tók við formannsembættinu var Jasoni þakkað fyrir óeigingjarnt starf í þágu hreyfingarinnar en Stefán Jóhannesson, varaformaður stjórnar BLÍ veitti Jasoni gullmerki Blaksambands Íslands.

Grétar Eggertsson tók við sem formaður BLÍ í lok þingsins og ber að merkja í þakkarræðunni hans kraft til að gera betur með félögunum í landinu, hvort sem það sé í grasrótinni eða ímyndarmálum blakíþróttarinnar í landinu. Hans fyrsta embættisverk var að sæma fráfarandi formann, Jason Ívarsson sem Heiðursformann Blaksambands Íslands.

Árni Jón Eggertsson var endurkjörinn í stjórn sambandsins og Svandís Þorsteinsdóttir, sem hefur verið í varastjórn var einnig kjörin í stjórn. Steinn G Einarsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Ragnheiður Sigurðardóttir voru kosin í varastjórn. Fyrir í stjórn BLÍ voru þau Stefán Jóhannesson og Kristín Hálfdánardóttir. 

Frétt tekin af heimasíðu BLÍ