[sam_zone id=1]

Álftanes mætir KA í undanúrslitum

Það verða KA og Álftanes sem mætast í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitil karla en Álftanes tryggði sér sæti í undanúrslitum með sigri á Þrótti Nes í kvöld.

Álftanes vann leikinn 3-0 (25-14, 25-23, 27-25) en heimamenn fóru vel af stað í leiknum í fyrstu hrinu sem þeir unnu með miklum yfirburðum. Liðsmenn Þróttar komu sér hinsvegar hægt og rólega inní leikinn og eftir spennandi kafla í annarri hrinu þá voru gestirnir með ágætis tök á leiknum í þriðju hrinu eftir að hafa komist yfir 6-0. Heimamenn gáfust hinsvegar aldrei upp og náðu að jafna 24-24 eftir að hafa verið undir alla hrinuna. Sóknarleikur Álftaness reyndist Þrótti erfiður en þrátt fyrir mikla baráttu og góðan varnarleik hjá ungum liðsmönnum Þróttar þá voru það Álftanes sem fóru að lokum með sigur 27-25.

Stigahæstur í liði Álftanes var Jordan Darlington með 17 stig en næstur á eftir honum kom Gunnar Pálmi Hannesson með 12 stig. Stigahæstur í liði Þróttar Nes var Þórarinn Örn Jónsson með 11 stig.

Álftanes mætir því KA í undanúrslitum en fyrsti leikur liðanna er á laugardaginn og hefst hann kl 14:00, leikurinn fer fram í KA heimilinu á Akureyri.