[sam_zone id=1]

Völsungur sigraði Þrótt Nes í forkeppninni

Völsungur og Þróttur Neskaupstað mættust í forkeppni úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitil kvenna í kvöld.

Völsungur var í 4. sæti deildarinnar en Þróttur Nes í því sjöunda. Þau mættust því í þessum fyrsta leik forkeppninnar þar sem að sigurvegarinn heldur í vonina um þátttöku í úrslitakeppninni. Einungis einn leikur er spilaður í þessari umferð og því um hreinan úrslitaleik að ræða.

Leikið var á Húsavík en gestirnir byrjuðu leikinn betur. Nokkuð jafnt var þó framan af fyrstu hrinunni en Þróttarar sigu fram úr um miðja hrinuna. Völsungur náði að minnka muninn í eitt stig, 19-20, en þá tóku Þróttarar yfir og kláruðu hrinuna 19-25.

Önnur hrina var mjög ólík þeirri fyrstu en Völsungur byrjaði á því að komast 6-0 yfir og leit ekki um öxl eftir það. Þróttur minnkaði aðeins muninn undir lok hrinunnar en Völsungur vann hrinuna þó örugglega, 25-19. Þróttarar hófu þriðju hrinuna af krafti en Völsungur náði fljótt forystunni og vann þá hrinu einnig 25-19.

Þróttur Nes þurfti nauðsynlega að vinna fjórðu hrinuna til að halda lífi í tímabilinu og byrjaði vel. Þær náðu mest fjögurra stiga forystu og leiddu 7-11. Völsungur jafnaði leikinn fljótt og var seinni hluti hrinunnar æsispennandi. Eftir að hafa leitt 24-22 missti Völsungur af tækifærinu á að klára leikinn en Þróttur jafnaði leikinn 24-24. Það dugði þó ekki til því Völsungur skoraði síðustu tvö stigin og vann hrinuna 26-24.

Ashley Nicole Dietrich og Rut Gomez leiddu lið Völsungs eins og svo oft áður en Ashley skoraði 22 stig og Rut 16. Arna Védís Bjarnadóttir bætti við 12 stigum fyrir Völsung. Í liði Þróttar Nes skoruðu Tinna Rut Þórarinsdóttir og Ana Maria Vidal Bouza 13 stig hvor og Særún Birta Eiríksdóttir skoraði 11 stig.

Völsungur tryggir sér þar með áframhaldandi þátttöku í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en Þróttur Nes hefur lokið keppni þetta tímabilið. Völsungur mætir sigurvegaranum úr leik Þróttar Reykjavíkur og Álftaness en honum er enn ólokið þegar þessi frétt er skrifuð. Sigurvegari úr því einvígi mætir svo KA í undanúrslitum.