[sam_zone id=1]

Deildarkeppni Mizunodeildar karla lýkur með sigri HK

HK og Þróttur Neskaupstað mættust í dag í síðasta leik Mizunodeildar karla í vetur en liðin áttust einnig við í gær þar sem HK hafði betur 3-0.

Lið Þróttar Nes átti ekki mörg svör við leik HK í gær en liðið bauð uppá allt annan leik í dag og stóð vel í heimamönnum. Það var allt annað að sjá til Þróttar Nes strax í fyrstu hrinu en þar hélt liðið lengi vel í lið HK sem sigraði þó á endanum 25-18. Liðsmenn HK reyndust hinsvegar öflugri en þrátt fyrir miklar breytingar á byrjunarliði sínu í annari hrinu þá sigraði HK hana einnig 25-18.

Þróttarar héldu áfram að stríða HK í þriðju hrinu en eftir að HK hafði verið yfir megnið af hrinunni þá komust gestirnir yfir í stöðunni 19-20. Þá setti HK hinsvegar í lás og tryggði sér 3-0 sigur með 25-22 sigri í þriðju hrinu.

Stigahæstur í leiknum í dag var Theódór Óskar Þorvaldsson leikmaður HK með 12 stig. Stigahæstur í liði Þróttar var Galdur Máni Davíðsson með 11 stig.

Þar með er deildarkeppni Mizunodeildar karla lokið og má sjá lokastöðuna hér að neðan.