[sam_zone id=1]

HK sigraði Þrótt Nes

HK fékk Þrótt Nes í heimsókn í Mizunodeild kvenna í dag.

HK hafði ekki að miklu að keppa en liðið hafði nú þegar tryggt sér annað sæti deildarinnar og KA hafði tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Þróttur Nes átti hins vegar möguleika á 5. sæti deildarinnar. Þróttur mætti þó ekki með sitt sterkasta lið til leiks en Laura Gazquez og Ana Maria Vidal léku ekki með Þrótti í dag.

HK byrjaði leikinn af krafti og jók forskot sitt smám saman út hrinuna. Spennan varð ekki mikil og HK sigraði hrinuna 25-14. Þróttarar vöknuðu heldur betur til lífsins í annarri hrinu sem var jöfn alveg frá byrjun. Undir lokin reyndist lið HK þó sterkara og vann hrinuna 26-24.

HK var þar með komið í þægilega stöðu, 2-0 yfir, og byrjaði þriðju hrinu einnig af miklum krafti. Þróttur átti ekki möguleika í hrinunni og HK sigraði 25-11. HK vann leikinn þar með 3-0 en nú þarf Þróttur Nes á sigri að halda á morgun til að jafna Þrótt Reykjavík í 5. sætinu. HK fékk silfurverðlaun Mizunodeildar kvenna afhent að leik loknum.

Hjördís Eiríksdóttir skoraði 12 stig fyrir HK og Elísabet Einarsdóttir bætti við 11 stigum. Tinna Rut Þórarinsdóttir og Vanda Jónasardóttir skoruðu 6 stig hvor fyrir Þrótt Nes. Liðin mætast aftur á morgun klukkan 14:00.