[sam_zone id=1]

Aarhus úr leik í dönsku úrslitakeppninni

ASV Aarhus, lið Valþórs Inga Karlssonar, heimsótti Middelfart VK í dag í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum dönsku úrslitakeppninnar.

Eftir að hafa tapað fyrsta leiknum 1-3 voru Aarhus með bakið upp við vegg. Þeir þurftu á sigri að halda til að halda draumnum um sæti í undanúrslitum lifandi.

Ekki hófst leikurinn vel fyrir þá þar sem þeir töpuðu fyrstu hrinunni 18-25. Eftir spennandi aðra hrinu tókst þeim að jafna leikinn með 27-25 sigri. Ekki gekk eins vel í þriðju og fjórðu hrinunum og töpuðust þær 18-25 og 17-25 og leikurinn þar með 1-3.

Þar með komust Middelfart áfram í undanúrslitin á kostnað Aarhus. Þeir munu leika um 5.-8. sætið en það á eftir að koma í ljós hverjir mótherjar þeirra verða.

Valþór Ingi hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið og var því ekki í leikmannahóp í dag.