[sam_zone id=1]

Marienlyst unnu Nordenskov í sveiflukenndum leik

Ævarr Freyr Birgisson og félagar í Boldklubben Marienlyst hófu í gær leik í 8 liða úrslitum dönsku úrslitakeppninnar þegar þeir fengu lið Nordenskov Ungdoms- og IF í heimsókn.

Marienlyst hófu leikinn af miklum krafti og varð munurinn í fyrstu hrinunni mestur átta stig, í stöðunni 16-8. Nordenskov minnkuðu muninn örlítið eftir því sem á hrinuna leið en Marienlyst unnu hana þó 25-20.

Önnur hrinan var algjör andhverfa þeirrar fyrstu þar sem Nordenskov völtuðu yfir Marienlyst. Þeir leiddu mest með 8 stigum í stöðunni 12-20 og 16-24 og unnu þeir hrinuna 19-25.

Í stöðunni 2-3 fyrir Nordenskov í þriðju hrinunni skoruðu Marienlyst tíu stig í röð og nældu sér í þægilegt forskot. Hrinunni lauk með 25-13 sigri Marienlyst.

Aftur snerist dæmið við í fjórðu hrinunni þar sem Nordenskov voru mikið sterkara liðið. Þeir komu sér fljótt nokkrum stigum á undan Marienlyst og þó að Marienlyst hafi minnkað muninn örlítið unnu þeir fjórðu hrinuna 20-25.

Oddahrinan var nokkuð spennandi en hafði Marienlyst þó örlítið forskot alla hrinuna. Hrinunni lauk með minnsta mun, 15-13, Marienlyst í vil og unnu þeir leikinn því 3-2.

Ævarr Freyr kom inn á í uppgjöf undir lok annarrar hrinu og um miðja oddahrinu og skoraði tvö stig beint úr uppgjöf.

Næsti leikur liðanna er sunnudaginn næstkomandi á heimavelli Nordenskov og tryggir Marienlyst sér sæti í undanúrslitunum með sigri.