[sam_zone id=1]

Afturelding tryggði sér 3. sætið

Afturelding tók í gær á móti Þrótti Reykjavík í lokaleik liðanna í Mizunodeild kvenna.

Afturelding gat tryggt sér 3. sætið í deildarkeppninni með því að ná í eitt stig en Þróttur Reykjavík er í harðri baráttu um 5. sætið. Jafnræði var með liðunum í fyrstu hrinu þar til Þróttur átti góðan kafla um miðja hrinu og náði mest 5 stiga forystu. Afturelding náði að jafna 19-19 og lokakaflinn var spennandi. Þróttarar skoruðu þó síðustu 3 stig hrinunnar og unnu hana 22-25.

Önnur hrina hófst með svipuðum hætti og sú fyrsta en nú var það Afturelding sem seig fram úr. Þær náðu 16-10 forystu og Þróttur náði ekki að brúa það bil. Afturelding vann hrinuna sannfærandi 25-17 og jafnaði leikinn 1-1. Þróttur byrjaði þriðju hrinu þó glæsilega og náði strax góðu forskoti. Afturelding elti alla hrinuna og að lokum sigraði Þróttur nokkuð örugglega, 25-18.

Afturelding þurfti að sigra 4. hrinuna til að tryggja sér stig úr leiknum og það sást frá byrjun hrinunnar að þær væru staðráðnar í að gera það. Þær náðu yfirhöndinni alveg frá byrjun og juku forystuna út hrinuna. Að lokum sigruðu þær hrinuna auðveldlega, 25-10, og tryggðu sér þar með bronsverðlaun deildarkeppninnar.

Afturelding leyfði sér að breyta mikið til í liði sínu í oddahrinunni og reyndist Þróttur þar sterkara liðið. Þróttur sigraði hrinuna 7-15 og leikinn þar með 2-3 en liðið situr nú í 5. sæti með 18 stig og hefur lokið keppni. Þróttur Nes á þó tvo leiki til góða en þær mæta HK tvívegis um helgina. Þær eru með 15 stig og geta því komist upp í 5. sætið með góðum úrslitum í Kópavogi.

Karen Björg Gunnarsdóttir skoraði 19 stig fyrir Aftureldingu en Velina Apostolova bætti við 15 stigum. Í liði Þróttar var Eldey Hrafnsdóttir stigahæst með 17 stig en María Gunnarsdóttir og Katrín Sara Reyes skoruðu 9 stig hvor.

(Mynd fengin frá Facebook-síðu Blakdeildar Aftureldingar)