[sam_zone id=1]

Tap í fyrsta leik Aarhus í 8 liða úrslitum

Valþór Ingi Karlsson og félagar í ASV Aarhus fengu í dag Middelfart VK í heimsókn í fyrsta leik 8 liða úrslita dönsku úrslitakeppninnar.

Aarhus slógu Middelfart út úr bikarkeppninni í 8 liða úrslitum á dramatískan hátt og voru gestirnir því staðráðnir í að hefna fyrir það.

Fyrsta hrinan var nokkuð jöfn og spennandi en Middelfart voru þó alltaf skrefi á undan. Það var ekki fyrr en undir lok hrinunnar sem Aarhus jöfnuðu og tókst loks að komast fram úr. Aarhus unnu fyrstu hrinuna eftir upphækkun, 27-25.

Aarhus lentu fljótt nokkrum stigum undir í annarri hrinunni en tókst að komast fram úr í stöðunni 18-17. Middelfart skoruðu hins vegar sjö af næstu átta stigum og unnu hrinuna að lokum 25-21.

Þriðja og fjórða hrinan hófust báðar á mjög svipaðan hátt og sú önnur. Middelfart voru fljótir að næla sér í nokkurra stiga forskot en ólíkt annarri hrinunni létu þeir það ekki af hendi. Þeir unnu bæði þriðju og fjórðu hrinuna 20-25 og leikinn þar með 1-3.

Valþór Ingi var ekki á leikmannalista í kvöld þar sem hann hefur verið að glíma við meiðsli.

Næsti leikur liðanna er laugardaginn næstkomandi klukkan 16 að staðartíma (15 á Íslandi) og verður hann sýndur á Volley TV.