[sam_zone id=1]

Unnur og Ævarr unnu íslendingaslagina í Danmörku

Í gær fóru fram tveir íslendingaslagir í dönsku úrvalsdeildinni. Í fyrri leiknum lék Unnur Árnadóttir og lið hennar, Elite Volley Aarhus (EVA), gegn Berglindi Gígju Jónsdóttur og liði hennar, Fortuna Odense Volley og í seinni leiknum lék Valþór Ingi Karlsson og ASV Aarhus gegn Ævarri Frey Birgissyni og Boldklubben Marienlyst.

Báðir leikirnir fóru fram í Aarhus og var leikur Unnar og Berglindar fyrstur. Eftir spennandi leik sem hefði auðveldlega getað fallið hvoru megin sem er unnu EVA leikinn 3-1 (26-24, 25-11, 24-26 og 25-23).

Unnur kom ekki við sögu hjá EVA í leiknum en Berglind lék allan leikinn hjá Fortuna sem uppspilari.

Þetta var síðasti leikur beggja liða í deildinni í vetur og enduðu EVA í þriðja sætinu með 33 stig og Fortuna í sjötta sætinu með 18 stig. Liðin mætast aftur í 8 liða úrslitum úrslitakeppninnar og er fyrsti leikur þeirra miðvikudaginn 13. mars.

Í karlaleiknum mættust þrír fyrrum KA menn, Valþór Ingi og Quentin Moore hjá Aarhus og Ævarr Freyr hjá Marienlyst.

Það var búist við hörkuleik þar sem liðin voru í öðru og fjórða sæti deildarinnar og mikilvæg stig í boði fyrir úrslitakeppnina. Marienlyst vann þó nokkuð öruggan 0-3 sigur (19-25, 17-25 og 18-25).

Valþór er frelsingi hjá Aarhus og lék meiri hluta leiksins í dag þrátt fyrir meiðsli. Hann átti ekki sinn besta dag, var með 9 móttökur og voru 22% þeirra jákvæðar og 0% fullkomnar. Ævarr kom inn á undir lok þriðju hrinunnar í uppgjöf og móttöku og stóð sig ágætlega.

Eins og kvennamegin voru þetta síðustu leikir liðanna í deildinni í vetur og enduðu Aarhus í fimmta sætinu með 34 stig og Marienlyst í því öðru með 48 stig. Aarhus mæta Middelfart í 8 liða úrslitum úrslitakeppninnar og Marienlyst mæta Nordenskov. Aarhus leikur sinn fyrsta leik miðvikudaginn 13. mars og Marienlyst fimmtudaginn 14. mars.