[sam_zone id=1]

Þróttaraslagurinn endaði í oddahrinu

Þróttaraslagur fór fram í Laugardalnum í dag þegar Þróttur Reykjavík og Þróttur Neskaupstað mættust í Mizunodeild kvenna. Þróttur Nes sigraði 3-2 eftir rúmlega tveggja tíma hörkuleik.

Fyrsta hrina var jöfn allan tímann og skiptust liðin á því að vera yfir. Hrinan fór 23-25 fyrir Þrótti Nes en fyrirliðinn, Særún Birta, skoraði síðasta stigið. Særún Birta var atkvæðamikil fyrir gestina í hrinunni og skoraði sjö stig, fimm úr sókn, eitt úr hávörn og eitt úr uppgjöf.

Heimastúlkur byrjuðu betur í annari hrinu og komust í 8-4. Gestirnir jöfnuðu hins vegar leikinn í stöðunni 13-13 og allt var ennþá jafnt í stöðunni 18-18. Þróttur Nes gaf svo í undir lok hrinu og sigraði 21-25.

Þróttur Reykjavík var með yfirhöndina allan tíman í þriðju hrinu. Þróttur Nes komst aðeins einu sinni yfir en það var í byrjun hrinunnar í stöðunni 1-2. Annars héldur Þróttur Reykjavík yfirhöndinni allan tímann og tóku þriðju hrinu 25-19. Eldey, fyrirliði Þróttar Rvk, var áberandi í hrinunni og skoraði sjö stig fyrir heimaliðið.

Heimastúlkur voru komnar með bakið upp við vegg þar sem staðan var 1-2 í hrinum. Fjórða hrina var jöfn allan tíman og þurfti upphækkun til þess að knýja fram úrslit í hrinunni. Það var svo Þróttur Reykjavík sem fór með sigur í hrinunni 27-25 og náðu þar með að jafna leikinn 2-2.

Gestirnir byrjuðu oddahrinuna af miklum krafti og komust í 0-4. Þær héldu forystunni alla hrinuna og sigruðu hrinuna 7-15 og þar með leikinn 2-3.

Sigahæst í leiknum var Særún Birta Eiríksdóttir, fyrir Þrótt Nes, með 24 stig, þar af 17 úr sókn, 3 úr uppgjöf, og 4 úr hávörn. Næst stigahæst hjá gestunum var Laura Gázquez Ortega með 17 stig, þar af 14 úr sókn, 1 úr uppgjöf, og 2 úr hávörn.

Stigahæst hjá Þrótti Reykjavík var Eldey Hrafnsdóttir með 25 stig, þar af 22 úr sókn, 2 úr uppgjöf, og 1 úr hávörn. Næst stigahæst hjá Þrótti var María Gunnarsdóttir með 13 stig, þar af 12 úr sókn og einn ás.