[sam_zone id=1]

Afturelding sigraði Þrótt Nes aftur

Afturelding tók aftur á móti Þrótti Nes í Mizunodeild karla í dag.

Afturelding sigraði leik gærdagsins auðveldlega og var því búist við öðrum sigri þeirra í dag. Í upphafi leiks virtist það ætla að ganga eftir en Þróttur Nes sá aldrei til sólar í fyrstu hrinu. Afturelding valtaði yfir Þróttara og sigraði hrinuna 25-5, tölur sem sjást ekki á hverjum degi og hvað þá í efstu deild.

Afturelding leyfði sér að skipta Piotr Kempisty og Alexanderi Stefánssyni útaf í annarri hrinu en þá vöknuðu Þróttarar til lífsins. Þeir leiddu alla hrinuna og náði munurinn tveggja stafa tölu í seinni hluta hrinunnar. Piotr kom aftur inn í lið Aftureldingar en það dugði ekki til og Þróttur sigraði 21-25.

Þriðja hrina var spennandi og var jafnt framan af hrinunni. Eftir góða byrjun Aftureldingar átti Þróttur Nes góðan kafla og leiddi 13-17 en Afturelding kom sér aftur inn í leikinn og jafnaði 18-18. Eftir þetta skiptust liðin á stigum en Afturelding skoraði síðustu tvö stigin og sigraði hrinuna 25-23.

Í fjórðu hrinu var jafnt allt fram að stöðunni 10-10 en þá seig Afturelding fram úr. Þeir byggðu smám saman upp gott forskot og að lokum tryggðu þeir sér 3-1 sigur með því að vinna hrinuna 25-20.

Piotr Kempisty fór mikinn í liði Aftureldingar og skoraði 26 stig en Radoslaw Rybak bætti við 16 stigum. Þórarinn Örn Jónsson var stigahæstur Þróttara með 11 stig en Galdur Máni Davíðsson skoraði 9 stig.

Afturelding kemst með sigrinum í 2. sæti Mizunodeildarinnar með 23 stig en HK er með 21 stig í þriðja sætinu. Þróttur Nes er á botninum með 10 stig og eiga nú ekki lengur möguleika á 4. sætinu. Því er ljóst að þeir ljúka deildarkeppninni í 5. sæti Mizunodeildar karla.