[sam_zone id=1]

Afturelding sigraði Þrótt Nes

Afturelding mætti Þrótti Nes á heimavelli í Mizunodeild kvenna í dag.

Ansi þéttur pakki er frá 3.-7. sætis í deildinni og fyrir leikinn gátu bæði lið náð 3. sætinu með því að sigra síðustu leiki sína en þurftu þó að treysta á að Völsungur myndi tapa stigum. Afturelding byrjaði leikinn frábærlega og valtaði yfir gestina frá Neskaupstað í fyrstu hrinu. Henni lauk 25-15 fyrir Aftureldingu og litu Mosfellingar vel út til að byrja leikinn.

Önnur hrina hófst einnig með miklum yfirburðum Aftureldingar sem leiddi fljótlega 12-5. Þá hófst frábær kafli Þróttara og þegar gestirnir höfðu náð 15-17 forystu tók Piotr Poskrobko, þjálfari Aftureldingar, sitt annað leikhlé. Bæði lið gerðu töluvert af mistökum undir lok hrinunnar en Þróttarar reyndust sterkari og unnu 22-25 sigur.

Jafnræði var með liðunum í byrjun þriðju hrinu og enn var mikið um mistök hjá báðum liðum. Þrír ásar á stuttum tíma komu Aftureldingu 9-6 yfir. Sá munur hélst nokkurn veginn fram undir lok hrinunnar en þá seig Afturelding fram úr og sigraði 25-21.

Afturelding náði 4-0 forystu til að byrja fjórðu hrinu en Þróttarar tóku þá við sér og jöfnuðu 8-8. Afturelding náði öðrum góðum kafla í kjölfarið og leiddi 14-9. Heimakonur héldu þessari forystu út hrinuna og tryggðu sér að lokum 25-19 sigur og mikilvægan 3-1 sigur í leiknum.

Karen Björg Gunnarsdóttir skoraði 14 stig fyrir Aftureldingu og Velina Apostolova bætti við 12 stigum. Í liði Þróttar Nes var Tinna Rut Þórarinsdóttir stigahæst með 12 stig en Laura Gázquez Ortega skoraði 9 stig.

Með sigri Aftureldingar er liðið nú jafnt Völsungi að stigum í 3.-4. sætinu og liðin eru einnig með jafn marga sigra í deildinni. Þróttur Nes er hins vegar í 7. sætinu með 13 stig. Síðasti leikur Aftureldingar verður miðvikudaginn 13. mars gegn Þrótti Reykjavík en Þróttur Nes mætir einmitt Þrótti Reykjavík á morgun klukkan 11:00. Sá leikur fer fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans.