[sam_zone id=1]

Afturelding með stórsigur

Afturelding tók einnig á móti Þrótti Nes í Mizunodeild karla í dag.

Afturelding sat í 4. sæti deildarinnar fyrir leikinn en var einungis 2 stigum á eftir liði Álftaness. Þróttur Nes var í 5. sætinu, 7 stigum á eftir Aftureldingu en á þó flesta leiki eftir af liðum deildarinnar. Bæði lið áttu því möguleika á að komast ofar í töflunni.

Þróttur Nes hefur leikið síðustu leiki sína án Miguel Angel Ramos Melero en hann hefur verið atkvæðamikill í sóknarleik liðsins. Piotr Kempisty var hins vegar kominn aftur í lið Aftureldingar og hóf leik í byrjunarliðinu. Afturelding byrjaði af krafti og náði 9-3 forystu. Afturelding hafði mikla yfirburði alla hrinuna og sigraði hana 25-12.

Það sama var uppi á teningnum í næstu hrinu sem Afturelding vann einnig 25-12. Þriðja hrina gekk eins fyrir sig þar sem að Afturelding byggði smám saman upp afgerandi forystu og sigraði þá hrinu 25-14, sem tryggði 3-0 sigur í leiknum.

Radoslaw Rybak var öflugur hjá Aftureldingu og skoraði 24 stig en Piotr Kempisty bætti við 13 stigum. Þeir félagar skoruðu 14 ása í leiknum, Rybak skoraði 8 og Piotr 6. Galdur Máni Davíðsson skoraði 6 stig fyrir Þrótt Nes og Atli Fannar Pétursson bætti við 4 stigum.

Liðin mætast öðru sinni á morgun og hefst sá leikur klukkan 14:30. Þetta verður síðasti deildarleikur Aftureldingar þetta tímabilið en Afturelding getur komist upp fyrir HK í 2. sætið með sigri. Nú er hins vegar ljóst að HK og Afturelding munu ljúka keppni í 2. og 3. sætinu og mætast þar með í undanúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn. Liðið í 2. sæti fær heimavallarrétt og því er enn að miklu að berjast.