[sam_zone id=1]

Aarhus unnu öruggan sigur gegn Aalborg

Valþór Ingi Karlsson og félagar í ASV Aarhus tóku í dag á móti botnliði Aalborg Volleyball í dönsku úrvalsdeildinni. Aarhus eru í harðri baráttu við Middelfart um fjórða sæti deildarinnar og var því mikilvægt fyrir þá að fá öll þrjú stigin í dag.

Eins og búast mátti við voru Aarhus töluvert sterkari aðilinn í upphafi leiks og unnu þeir fyrstu tvær hrinurnar af miklu öryggi, 25-16 og 25-12.

Liðin fylgdust að fram undir miðja þriðju hrinu en Aalborg voru þó alltaf skrefi á undan. Aarhus tókst að jafna í stöðunni 15-15 en þá skoruðu Aalborg sex af næstu sjö stigum og komust í þægilegt forskot. Aalborg unnu hrinuna að lokum 21-25.

Aarhus voru ekki lengi að hrista tapið í þriðju hrinunni úr sér og hófu þeir fjórðu hrinuna af miklum krafti. Þeir náðu góðu forskoti strax í upphafi hrinunnar og juku það eftir því sem á leið. Þeir unnu hrinuna 25-13 og leikinn þar með 3-1.

Valþór Ingi var hvíldur í dag og var hann því ekki með í leiknum. Aarhus nýttu einnig tækifærið og leyfðu flestum leikmönnum sínum að spreyta sig.

Aarhus nældu sér þannig í þrjú mikilvæg stig og eru nú í fjórða sæti deildarinnar með 34 stig eftir 19 leiki, einu stigi á undan Middelfart. Næsti leikur Aarhus er jafnframt þeirra síðasti í deildinni í vetur og er hann á laugardaginn þar sem þeir mæta Boldklubben Marienlyst. Þar mætast þrír fyrrum KA menn, þeir Valþór Ingi og Quentin Moore í Aarhus og Ævarr Freyr Birgisson í Marienlyst.