[sam_zone id=1]

Þróttur sigraði Álftanes í sveiflukenndum leik

Álftanes og Þróttur Reykjavík mættust í Mizunodeild kvenna í gærkvöldi þar sem Þróttur fór með 2-3 sigur á útivelli.

Fyrsta hrina fór jafnt af stað. Matt Gibson, þjálfari Álftaness, tók leikhlé í stöðunni 14-15 fyrir Þrótt en það leikhlé dugði ekki til og juku Þróttarar forystuna. Matt tók aftur leikhlé í stöðunni 15-20 en Þróttarar kláruðu hrinuna 18-25.

Önnur hrina fór einnig jafnt af stað en um miðja hrinu byrjuðu Þróttarar að ná yfirhöndinni á hrinunni. Þróttarar tóku aðra hrinu nokkuð örugglega 18-25 og leit allt út fyrir öruggan 0-3 sigur Þróttar í leiknum.

Álftanes virtist vakna til leiks í byrjun þriðju hrinu en Ingólfur Hilmar Guðjónsson, þjálfari Þróttar, var búinn með bæði leikhléin sín í hrinunni þegar staðan var 12-2 fyrir Álftanesi. Álftanes kláraði hrinuna 25-7 og því staðan 1-2 í hrinum.

Fjórða hrina fór eins af stað eins og sú þriðja. Þróttarar tóku leikhlé í stöðunni 7-1 og svo aftur í stöðunni 15-4. Matt Gibson gerði þrjár breytingar á byrjunnarliðinu í hrinunni en Astrid fór útaf fyrir Heiðrúnu, Ragnheiður útaf fyrir Ásthildi og Erla Rán útaf fyrir Þórdísi. Þróttur náði að saxa á forskotið með sterkum uppgjöfum og góðum varnarleik. Í stöðunni 23-19 skipti Matt öllum leikmönnunum til baka og var því kominn með upprunalegt byrjunnarlið á völlinn. Álftanes rétt tókst að vinna hrinuna 25-23 eftir að Þróttur náði sér upp úr stöðunni 21-11 í 25-23.

Fimmta hrina var jöfn og spennandi allan tímann. Skipt var um vallarhelminga í stöðunni 8-7 fyrir Álftanes. Þróttur tók leikhlé í stöðunni 11-8 og skilaði það leikhlé sínu því jafnt var í 11-11 þegar Álftanes tók leikhlé. Álftanes tók aftur leikhlé í stöðunni 12-13 en það dugði ekki til og skoruðu Þróttarar tvö stig í viðbót og tryggðu sér sigur í hrinunni 12-15 og í leiknum 2-3.

Þróttarar voru með gífurlega sterkar uppgjafir og skoruðu þær 21 ás í leiknum og 27 sóknarstig. Stigahæst í liði Þróttar var Eldey Hrafnsdóttir með 22 stig. Næst stigahæst hjá Þrótti var Katla Hrafnsdóttir með 7 stig. Stigahæst í leiknum var Erla Rán Eiríksdóttir, leikmaður Álftaness, með 26 stig. Næst stigahæst hjá Álftanesi var Astrid Ericsson með 15 stig.