[sam_zone id=1]

Völsungur sigraði Þrótt í Neskaupstað

Þróttarar úr Neskaupstað fengu Völsung í heimsókn í Mizunodeild kvenna í dag.

Heimakonur hófu leikinn af krafti og leiddu snemma 9-4. Það dugði þó ekki lengi því Völsungur skoraði næstu 6 stig og náði 9-10 forystu. Völsungur náði fljótt tökum á hrinunni og sigraði hana 19-25. Önnur hrina var hins vegar æsispennandi og náði hvorugt liðið að slíta sig frá hinu.

Alveg frá upphafi var önnur hrina hnífjöfn og skiptust liðin á stigum alla hrinuna. Staðan var jöfn 19-19 þegar Völsungur tók góðan sprett. Þróttarar náðu hins vegar að jafna 23-23 en tvö sóknarmistök Þróttara undir lok hrinunnar tryggðu gestunum 24-26 sigur í hrinunni.

Þróttarar komust 6-3 yfir í byrjun þriðju hrinu en þá sneri Völsungur leiknum sér í vil. Þær komust 6-10 yfir og Þróttur náði mest að minnka muninn í 2 stig í hrinunni. Völsungur sigraði 21-25 og vann leikinn þar með 0-3.

Völsungur situr nú í 3. sæti deildarinnar með 21 stig eftir 15 leiki. Þróttarar eru hins vegar komnir í botnsæti deildarinnar með 13 stig eftir 12 leiki en eru jafnar Þrótti Reykjavík að stigum.

Tölfræði úr leiknum er því miður ekki aðgengileg eins og er.