[sam_zone id=1]

Marienlyst töpuðu mikilvægum stigum gegn Ikast

Boldklubben Marienlyst, lið Ævarrs Freys Birgissonar, fékk í dag Ikast KFUM í heimsókn í dönsku úrvalsdeildinni.

Marienlyst er í harðri baráttu við Gentofte og Hvidovre í efstu þremur sætum deildarinnar svo það var mikilvægt fyrir þá að taka öll þrjú stigin í dag.

Gestirnir frá Ikast hófu leikinn af krafti og leiddu mestalla fyrstu hrinuna. Þeir voru yfir í stöðunni 22-24 en Marienlyst skoruðu fjögur stig í röð og tóku hrinuna því 26-24.

Eftir að hafa skorað fyrstu fimm stig annarrar hrinunnar og að hafa haldið þeirri forystu þar til í stöðunni 14-9 datt botninn undan spili Marienlyst. Fátt gekk upp á meðan Ikast spiluðu vel og unnu hrinuna 19-25.

Í þriðju hrinunni snerist dæmið við frá því í þeirri annarri. Marienlyst unnu hana 25-19 og því komnir 2-1 yfir.

Ikast höfðu fyrir leikinn í dag unnið fjóra leiki í oddahrinu í vetur og ætluðu þeir sér að bæta þeim fimmta við. Þeir tryggðu sér oddahrinu með 22-25 sigri í fjórðu hrinunni.

Það var í raun aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi í oddahrinunni þar sem Ikast tóku fljótt forskotið. Þeir unnu hrinuna 9-15 og leikinn þar með 2-3.

Ævarr Freyr hefur verið að glíma við veikindi undanfarið svo hann var ekki með liðinu í leiknum í dag.

Eftir leikinn er Marienlyst í öðru sæti deildarinnar með 36 stig eftir 16 leiki, tveimur stigum á eftir Gentofte og einu á undan Hvidovre. Næsti leikur þeirra er næstkomandi laugardag þegar þeir fá botnlið Amager VK í heimsókn.