[sam_zone id=1]

KA vann Aftureldingu

Kvennalið KA mætti Aftureldingu á heimavelli í Mizunodeild kvenna í dag.

Lið KA og HK eru langefst á toppi deildarinnar en fyrir leikinn var HK efst með 33 stig eftir 13 leiki og KA í öðru sætinu með 31 stig eftir 12 leiki. KA gat því náð toppsætinu aftur með sigri í dag.

KA byrjaði leikinn betur og jók smám saman forystuna eftir því sem leið á hrinuna. KA sigraði hrinuna 25-16 og virtist hafa góð tök á leiknum. Snemma í annarri hrinu náði Afturelding 5 stiga forskoti en KA jafnaði leikinn fljótt. KA reyndist svo sterkari aðilinn undir lokin, vann hrinuna 25-21 og komst 2-0 yfir á heimavelli.

Afturelding byrjaði þriðju hrinuna mjög vel og fljótlega leiddi liðið 6-12. KA átti erfitt með uppgjafir Aftureldingar sem skoraði þrjá ása á þessum 6-12 kafla í byrjun hrinunnar. KA náði að minnka muninn í þrjú stig en þá stakk Afturelding af. Afturelding sigraði hrinuna sannfærandi, 21-25, og minnkaði muninn þar með í 1-2.

KA hafði engan áhuga á því að fara með leikinn í oddahrinu og komst 9-0 yfir til að byrja fjórðu hrinuna. Heimakonur gáfu ekkert eftir og tryggðu sér þægilegan 3-1 sigur með því að vinna hrinuna 25-15.

Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 22 stig fyrir KA og Paula Del Olmo Gomez bætti við 20 stigum. Í liði Aftureldingar var Velina Apostolova atkvæðamest með 14 stig. KA er nú komið aftur á topp deildarinnar en liðin mætast aftur á morgun klukkan 15:00.