[sam_zone id=1]

HK með sannfærandi sigur á Álftanesi

Álftnesingar fengu HK í heimsókn í dag í Mizunodeild karla.

Fyrir leikinn var lið HK í 2. sæti deildarinnar og Álftanes skammt undan í 3. sætinu. Álftanes þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að missa ekki af HK-ingum í baráttunni um 2. sætið.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en HK náði fljótt yfirhöndinni í fyrstu hrinunni. Um miðja hrinuna var forysta HK orðin 6 stig, 15-21, og hélt HK forystunni alveg til enda hrinunnar. Henni lauk 19-25, HK í vil. Önnur hrina þróaðist á svipaðan hátt og eftir að hafa leitt stærstan hluta hennar sigraði HK 20-25.

Í þriðju hrinunni virtist lið Álftaness gefast upp og komst HK 1-8 yfir. Hrinan varð aldrei spennandi og vann HK hana 14-25.

Jordan Darlington, nýr leikmaður Álftaness, var stigahæstur í sínu liði með 11 stig en Theódór Óskar Þorvaldsson fór mikinn í sóknarleik HK og skoraði 22 stig fyrir gestina. HK styrkir þar með stöðu sína í 2. sæti deildarinnar og er nú með 21 stig eftir 13 leiki en Álftanes í 3. sæti með 14 stig eftir 14 leiki.