[sam_zone id=1]

Fortuna vann öruggan sigur á Ikast

Berglind Gígja Jónsdóttir og liðsfélagar hennar í Fortuna Odense Volley fengu Ikast KFUM í heimsókn í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Ikast hófu leikinn betur en gestgjafarnir og leiddu í stöðunni 9-11. Þá skelltu Fortuna í lás og sigldu örugglega fram úr Ikast. Hrinunni lauk með 25-16 sigri Fortuna.

Fortuna völtuðu yfir Ikast í upphafi annarrar hrinu og var munurinn mestur ellefu stig í stöðunni 18-7. Ikast minnkuðu muninn aðeins en það dugði ekki til og unnu Fortuna hrinuna 25-17.

Þriðja hrinan var sú jafnasta í leiknum en Fortuna voru þó alltaf með öruggt forskot. Þriðju hrinunni lauk með 25-19 sigri Fortuna og leiknum því 3-0.

Berglind kom inn á völlinn um miðja aðra hrinu og lék hana alveg til loka.

Fortuna eru í 6. sæti deildarinnar eftir leikinn með 16 stig eftir 13 leiki. Næsti leikur þeirra er næstkomandi laugardag þar sem þær fá topplið Holte IF í heimsókn.