[sam_zone id=1]

HK á toppi Mizunodeildar kvenna

HK tók á móti Þrótti Reykjavík í Mizunodeild kvenna í Fagralundi í kvöld. Fyrir leikinn var HK í öðru sæti deildarinnar með með 30 stig og Þróttarar í næst neðsta sæti með 13 stig. 

Þróttarar byrjuðu fyrstu hrinu betur og voru komnar í ágætt forskot 15-9 þegar góður kafli kom hjá HK sem jafnaði 15-15. HK stúlkur voru sterkari síðari hluta hrinunnar og unnu hana 25-18. Önnur hrina spilaðist svipað og voru liðin nokkuð jöfn framan af. Eftir að jafnt var í stöðunni 18-18 var komið að Þrótturum að eiga lokaorðið og unnu þær hrinuna 25-19 eftir góðan lokasprett. 

Þriðja hrina var aldrei í hættu hjá HK sem áttu nokkra mjög öfluga kafla í hrinunni og unnu hana 25-13. Gestgjafarnir sýndu einnig mikla yfirburði í fjórðu hrinu og unnu hana 25-15 og þar með leikinn 3-1. 

Stigahæstar í liði HK voru Elísabet Einarsdóttir með 26 stig og Hjördís Eiríksdóttir með 17 stig. Elísabet Nhien Yen Huynh var stigahæst Þróttara með 12 stig og Eldey Hrafnsdóttir var með 10.  

Með sigrinum er HK komið á topp Mizunodeildarinnar með 33 stig en KA er í öðru sæti með 31 stig en á leik til góða.

Mynd: A&R photos