[sam_zone id=1]

NEVZA kvk: KA lauk keppni í 6. sæti

Kvennalið KA lék í dag um 5.-6. sæti á NEVZA félagsliða.

KA rétt missti af sæti í undanúrslitum þegar liðið tapaði í oddahrinu gegn Oslo Volley og lék liðið því um 5.-6. sæti. Mótherjinn var danska liðið Team Køge sem tapaði einnig báðum leikjum sínum í riðlakeppninni. Leikur liðanna var kaflaskiptur og þróuðust hrinurnar á mjög mismunandi hátt.

Fyrsta hrinan var spennandi en Danirnir sigruðu hana 23-25. Þá kom mjög ójöfn hrina sem Køge sigraði 11-25. KA komst aftur í gang í þriðju hrinu og vann hana 25-22 en fjórða hrinan var svipuð annarri hrinunni. Køge sigraði hana 13-25 og vann leikinn þar með 1-3.

KA situr á toppi Mizunodeildarinnar hér heima með 31 stig eftir 12 leiki en liðið mætir Aftureldingu tvívegis næstu helgi. Þeir leikir fara fram á Akureyri og þarf liðið á öllum mögulegum stigum að halda í jafnri toppbaráttu við HK. Þessi tvö lið hafa stungið af í deildinni og verður endasprettur deildarinnar æsispennandi.

Bronsleikur NEVZA mótsins var ekki mjög spennandi en þar sigraði danska liðið Brøndby lið Oslo Volley frá Noregi. Leiknum lauk 0-3 (20-25, 10-25, 19-25). Úrslitaleikurinn var ekki heldur mikið fyrir augað en þar valtaði sænska liðið Engelholm yfir ToppVolley Norge.

ToppVolley Norge hafði sigrað Engelholm í riðlakeppninni en lið Engelholm hafði þegar tryggt sig áfram fyrir þann leik. Í leik dagsins fór Engelholm létt með norsku stúlkurnar í TVN og vann leikinn 0-3 (9-25, 20-25, 16-25). Gullið fer því til Svíþjóðar, silfrið til Noregs og bronsið til Danmerkur.