[sam_zone id=1]

NEVZA kk: KA náði 5. sæti

Karlalið KA sigraði síðasta leik sinn í dag og lauk NEVZA mótinu í 5. sæti.

Liðið vann einn leik og tapaði einum í B-riðli en enduðu í 3. sæti riðilsins. Leikurinn um 5.-6. sætið var því raunin og mætti KA þar danska liðinu Ishøj. KA tapaði fyrstu hrinunni 25-20 en eftir það sneri liðið leiknum við og var mun sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks.

KA vann næstu þrjár hrinur sannfærandi en þeim lauk 16-25, 20-25 og 11-25. Þar með tryggði KA sér 5. sætið á mótinu og vann tvo af þremur leikjum sínum. Næst á dagskrá hjá KA mönnum eru tveir leikir gegn Aftureldingu dagana 16.-17. febrúar á Akureyri. KA hefur nú þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og hefur því að litlu að keppa þar.

Í bronsleik mótsins mættust Hvidovre frá Danmörku og Randaberg frá Noregi. Leikurinn var spennandi en að lokum stóðu Hvidovre uppi sem sigurvegarar eftir 3-1 sigur (25-22, 19-25, 25-23, 26-24).

Í úrslitaleiknum mætti Marienlyst, lið Ævars Freys, enska liðinu IBB Polonia. Liðin mættust í riðlakeppninni og hafði Polonia betur í þeim leik, 3-2. Það sama mátti segja um úrslitaleikinn en eftir æsispennandi leik sigraði Polonia 2-3 (23-25, 25-19, 25-15, 23-25, 13-15) og tryggði sér gullið. Ævarr Freyr sótti þar með silfur á sínu fyrsta NEVZA móti félagsliða.