[sam_zone id=1]

Aarhus fóru illa með Amager

Valþór Ingi Karlsson og félagar í ASV Aarhus fengu Amager VK í heimsókn í dag í dönsku úrvalsdeildinni.

Fyrirfram var ekki búist við mikilli mótspyrnu frá gestunum þar sem þeir verma botnsæti deildarinnar ásamt Aalborg Volleyball á meðan Aarhus hafa verið meðal efstu 5 liða deildarinnar.

Aarhus fóru illa með gestina í fyrstu hrinunni og var aldrei spurning hvort liðið myndi vinna hana. Hrinunni lauk með 25-10 stórsigri Aarhus.

Önnur hrinan var öllu jafnari og leiddu Amager þar til um hana miðja. Í stöðunni 13-16 skoruðu Aarhus 6 stig í röð og komust þar með í þægilegt forskot sem þeir gáfu ekki eftir. Aarhus unnu aðra hrinuna 25-20 og voru því komnir 2-0 yfir.

Þriðja hrinan var enn meira óspennandi en sú fyrsta, þótt ótrúlegt megi virðast. Amager skoruðu fyrsta stig hrinunnar en Aarhus svöruðu því með því að skora næstu tíu stig. Amager tókst loksins að skora annað stig í stöðunni 10-1 en þá skoruðu Aarhus næstu sex. Aarhus unnu öruggan 25-9 sigur og leikinn þar með 3-0.

Valþór Ingi er frelsingi hjá Aarhus og var hann með bestu móttökuna af öllum á vellinum í dag. Hann tók 20 sinnum á móti boltanum og voru 60% þeirra jákvæðar og 25% fullkomnar.

Aarhus eru nú jafnir VK Vestsjælland í fjórða sætinu með 26 stig eftir 15 leiki. Næsti leikur þeirra er sunnudaginn 17. febrúar gegn Middelfart.