[sam_zone id=1]

NEVZA kk – Úrslit frá fyrsta degi

Fyrsti dagur NEVZA félagsliða fór fram í dag. Karlaflokkurinn er leikinn í Ishøj í Danmörku og er KA meðal þáttökuliða ásamt Ævarri Frey Birgissyni sem leikur fyrir Boldklubben Marienlyst. Bæði liðin eru í B riðli mótsins.

KA og Marienlyst mættust í fyrsta leik liðanna á mótinu. KA menn hófu leikinn af krafti á meðan Marienlyst leyfðu nokkrum af lykilmönnum sínum að hvíla. KA unnu sterkan 28-26 sigur í fyrstu hrinunni.

Marienlyst settu sitt sterkasta lið inn á í annarri hrinunni en KA menn stóðu vel í þeim. Annarri hrinunni lauk með 22-25 sigri Marienlyst.

Þriðja hrinan var sú ójafnasta í leiknum og unnu Marienlyst hana 17-25. Marienlyst unnu einnig fjórðu hrinuna, 20-25, og leikinn þar með 1-3.

Marienlyst léku einnig við IBB Polonia London frá Englandi í dag. Marienlyst hófu leikinn vel og unnu fyrstu tvær hrinurnar 25-18 og 25-17.

Þar með voru þeir öruggir áfram í undanúrslitin og ákvað þjálfarinn því að leyfa reynsluminni leikmönnum og þeim sem hafa lítið spilað undanfarið að spreyta sig restina af leiknum. Það gekk ekki betur en svo að næstu þrjár hrinur töpuðust 22-25, 22-25 og 7-15 og leikurinn þar með 2-3.

KA leikur gegn Polonia klukkan 11:15 á íslenskum tíma á morgun og ráða úrslitin því hvort liðið fer áfram í undanúrslitin. Leikurinn verður sýndur hér.

Úrslit úr A riðli í dag:

Hvidovre VK (Danmörk) – Ishøj Volley (Danmörk): 3-0.

Hvidovre VK (Danmörk) – Randaberg VK (Noregur): 2-3.