[sam_zone id=1]

Þægilegt hjá Aftureldingu gegn Þrótti

Þróttur Reykjavík tók á móti Aftureldingu í Mizunodeild kvenna í Laugardalshöll í gærkvöldi.

Afturelding leiddi alla fyrstu hrinu. Þróttarar náðu að jafna á nokkrum stöðum en komust aldrei yfir í hrinunni og endaði hrinan með 25-18 sigri gestanna. Önnur hrina þróaðist svipað og fyrsta og endaði með 25-17 sigri Aftureldingar.

Í þriðju hrinu skiptust liðin á forystu framan af þangað til að Afturelding náði ágætis forskoti. Þróttarar komust hins vegar í gang undir lokinn og unnu hrinuna 27-25. Í fjórðu hrinu byrjaði Afturelding af krafti og komst í 6-1. Þróttarar náðu að jafna 7-7 og virtist stefna í spennandi hrinu. Í stöðunni 11-10 fyrir Aftureldingu kom góður kafli hjá gestunum sem fengu 6 stig í röð og komust í 17-10. Það var of mikið forskot fyrir heimakonur að vinna upp og unnu gestirnir hrinuna 25-15 og þar með leikinn 3-1.

Með sigrinum komst Afturelding upp í 4. sæti Mizunodeildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki og Þróttarar detta niður í 5. sæti með 13 stig eftir 12 leiki.

Stigahæstar í liði Aftureldingar voru Velina Apostolova með 22 stig og Karen Björg Gunnarsdóttir með 14 stig. Eldey Hrafnsdóttir var stigahæst Þróttara með 20 stig og María Gunnarsdóttir var með 12.