[sam_zone id=1]

Aarhus unnu Ishøj í oddahrinu

Valþór Ingi Karlsson og ASV Aarhus heimsóttu í gær Ishøj Volley í dönsku úrvalsdeildinni.

Síðasti sigur Aarhus í deildinni var 2. desember á síðasta ári svo þeir voru orðnir hungraðir í sigur. Þeir hófu leikinn af krafti og komust í gott forskot snemma í fyrstu hrinunni. Ishøj minnkuðu muninn aðeins í síðari hluta hrinunnar en Aarhus unnu hana 25-19.

Sömu sögu er að segja af upphafi annarrar hrinunnar þar sem Aarhus komust fljótt nokkrum stigum fram úr. Ishøj komust fram úr um miðja hrinu en liðin voru mjög jöfn alveg til loka hennar. Ishøj unnu hrinuna 25-27.

Þriðja hrinan var ekki síður spennandi þar sem liðin fylgdust að alveg frá upphafi hennar. Ishøj voru sterkari undir lokin og unnu hrinuna 23-25.

Það var aldrei spurning hverjir myndu vinna fjórðu hrinuna þar sem Aarhus gáfu allt í botn. Þeir skoruðu átta stig í röð um miðja hrinu og unnu hana 25-14 og tryggðu sér þar með oddahrinu.

Aarhus héldu sama takti í oddahrinunni og gáfu Ishøj engan möguleika á að næla í sigur. Oddahrinunni lauk með 15-3 stórsigri Aarhus og leiknum þar með 3-2.

Því miður er engin tölfræði úr leiknum aðgengileg.

Aarhus eru nú í 6. sæti deildarinnar með 23 stig eftir 14 leiki, aðeins einu stigi á eftir Middelfart VK og tveimur á eftir VK Vestsjælland. Næsti leikur Aarhus er á laugardaginn þar sem þeir taka á móti Amager VK.