[sam_zone id=1]

Hylte/Halmstad með tvo öfluga sigra um helgina

Hylte/Halmstad lék um helgina síðustu leiki sína í deildarkeppninni í Svíþjóð en liðið mætti Örebro sem var í öðru sæti deildarinnar á laugardaginn og í dag mætti liðið síðan Lindesberg sem situr í fjórða sætinu.

Fyrri leikurinn gegn Örebro byrjaði vel hjá Hylte/Halmstad en liðið var greinilega ákveðið í að vinna leikinn. Þær voru mjög einbeittar í öllum sínum aðgerðum og unnu fyrstu hrinuna 25-21.
Eitthvað töluðu Örebro um í leikhléinu á milli hrina því þær mættu tvíefldar til leiks í næstu hrinum. Það var þó jafnræði með liðunum framan af en Örebro voru sterkari á lokasprettinum og unnu aðra hrinuna 25-19 og þá þriðju 25-22.

Hylte/Halmstad voru komnar með bakið upp að vegg og þurftu á sigri að halda í næstu hrinu til að eiga einhverja möguleika. Það var greinilegt að liðið ætlaði ekki að fara tómhent úr leiknum því þær völtuðu yfir gestina í þessari hrinu, 25-16 lokastaðan.

Það þurfti því að útkljá leikinn í oddahrinu og greinilegt að hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt eftir. Úr varð jöfn og spennandi oddahrina en að lokum voru það þó Hylte/Halmstad sem voru sterkari og unnu 15-12 og tryggðu sér þar með 3-2 sigur.

Jóna var gríðalega öflug í þessum leik og var hún langstigahæst í sínu liði með 22 stig, en það var einungis Carly De Hoog hjá Örebro sem var atkvæðameiri á vellinum en hún skoraði 25 stig fyrir sitt lið.

Hylte/Halmstad mætti síðan í dag liði Lindesberg. Leikurinn var mjög jafn allan tímann og greinilegt að leikmenn vildu fá sigur í síðasta leik deildarkeppninnar. Allar hrinurnar voru mjög svipaðar þar sem leikurinn var jafn framan af en undir lokinn voru þó Hylte/Halmstad alltaf aðeins sterkari. Hylte vann leikinn á endanum 3-0 (25-20, 25-21, 28-26).

Jóna Guðlaug var að vanda atkvæðamikil í leiknum en hún skoraði 14 stig í þessum leik og var aftur stigahæst í sínu liði.

Hylte/Halmstad endar því tímabilið á tveimur sigrum og tryggja sér þar með þriðja sætið í deildarkeppninni þetta árið.

Nánari tölfræði úr leikjunum má sjá hér.