[sam_zone id=1]

EVA tapaði gegn toppliði Holte

Elite Volley Aarhus (EVA), lið Unnar Árnadóttur, fékk í dag topplið Holte IF í heimsókn í dönsku úrvalsdeildinni.

Liðin voru fyrir leikinn í fyrsta og þriðja sæti deildarinnar, EVA einungis fjórum stigum á eftir Holte. Holte höfðu hins vegar ekki tapað deildarleik á tímabilinu og freistaði EVA þess að verða fyrsta liðið til að vinna þær.

Holte hófu leikinn af miklum krafti og var munurinn mestur 8 stig í fyrstu hrinunni. EVA komust í gang í stöðunni 14-22 og minnkuðu muninn en það var um seinan. Holte unnu fyrstu hrinuna 22-25.

EVA áttu í stökustu vandræðum í annarri hrinunni þar sem þær gerðu mörg mistök á meðan Holte spiluðu vel. Hrinunni lauk með 15-25 sigri Holte.

EVA hófu þriðju hrinuna mjög vel og leiddu mest með fjórum stigum, í stöðunni 15-11. Holte skoruðu hins vegar tíu af næstu tólf stigum og voru því með þægilegt fjögurra stiga forskot í stöðunni 17-21. EVA tókst að jafna í 23-23 og komast yfir í 25-24. Holte voru hins vegar sterkari undir lokin og unnu hrinuna 26-28 og þar með 0-3.

Unnur hefur verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur svo hún kom ekki við sögu í leiknum í dag.

EVA er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig eftir 12 leiki. Næsti leikur þeirra er 17. febrúar klukkan 14 að staðartíma (13 á Íslandi) gegn Frederiksberg Volley. Leikurinn verður sýndur á Volley TV.