[sam_zone id=1]

Marienlyst á toppinn eftir sigur á Vestsjælland

Ævarr Freyr Birgisson og félagar hans í Boldklubben Marienlyst áttu erfitt verkefni fyrir höndum þegar þeir heimsóttu VK Vestsjælland í kvöld í dönsku úrvalsdeildinni.

Liðin höfðu mæst tvisvar sinnum áður í vetur og unnu Marienlyst báða leikina 3-2 eftir mikla spennu. Fyrir leikinn voru Marienlyst í öðru sæti deildarinnar og Vestsjælland í því fjórða.

Eftir góða byrjun hjá Marienlyst þar sem þeir voru 9-6 yfir tóku heimamenn í Vestsjælland öll völd. Þeir skoruðu sex af næstu sjö stigum og unnu hrinuna 18-25. Ævarr kom inn á í stöðunni 17-21 til að hjálpa til í móttöku en fór aftur út af tveimur stigum síðar.

Önnur hrinan var nokkuð jöfn framan af en Vestsjælland voru þó 17-19 yfir. Marienlyst skoruðu síðustu 8 stig hrinunnar og unnu hana því 25-19.

Þriðja hrinan var einnig jöfn og spennandi en Vestsjælland voru aftur yfir þar til seinni hluta hrinunnar. Þeir voru 22-24 yfir en Marienlyst tókst að jafna og að lokum vinna hrinuna 28-26. Ævarr kom inn á í stöðunni 19-21 til að gefa upp og spila vörn en fór aftur út af stigi síðar.

Marienlyst voru sterkari aðilinn í gegnum alla fjórðu hrinuna. Þeir náðu fljótt góðu forskoti og létu það ekki af hendi. Ævarr kom inn á í stöðunni 19-14 og gerði vel, bæði í uppgjöf og vörn. Marienlyst unnu hrinuna 25-15 og leikinn þar með 3-1.

Með sigrinum tyllir Marienlyst sér á topp deildarinnar með 35 stig eftir 15 leiki, þremur stigum á undan Gentofte en Gentofte hafa þó einungis spilað 12 leiki.

Marienlyst fer þar með í rúmlega tveggja vikna frí í deildinni en næsta verkefni þeirra er NEVZA keppnin sem fram fer um næstu helgi í Ishøj. Fyrsti leikur þeirra verður íslendingaslagur þar sem þeir mæta KA, uppeldisfélagi Ævarrs.