[sam_zone id=1]

Þrír íslendingar í eldlínunni í Danmörku í gær

Danska úrvalsdeildin hófst á nýjan leik í gær eftir landsleikjapásu. Unnur Árnadóttir, Valþór Ingi Karlsson og Ævarr Freyr Birgisson áttu öll leiki.

Unnur reið á vaðið með Elite Volley Aarhus (EVA) þar sem þær fengu Team Køge í heimsókn. Eva hófu leikinn af miklum krafti og unnu fyrstu hrinuna stórt, 25-16. EVA og Køge skiptust á að vinna næstu hrinur og fóru þær 19-25, 29-27, 20-25 og oddahrina því raunin. Eftir spennandi oddahrinu unnu Køge hana með minnsta mun, 13-15 og leikinn þar með 2-3.

Unnur kom inn á snemma í fjórðu hrinunni og lék restina af leiknum. Henni tókst að skora tvö stig, eitt úr uppgjöf og eitt úr hávörn.

Valþór Ingi var næstur á svið með liði sínu ASV Aarhus þar sem þeir tóku á móti Nordenskov Ungdoms- og IF. Fyrirfram var búist við nokkuð þægilegum sigri Aarhus þar sem þeir eru í þriðja sætinu en Nordenskov eru í því áttunda. Sú varð ekki raunin þar sem Nordenskov unnu 0-3, 21-25, 27-29 og 19-25.

Því miður er engin tölfræði aðgengileg úr leiknum.

Ævarr Freyr var svo síðastur með liði sínu, Boldklubben Marienlyst, þar sem þeir heimsóttu Ishøj Volley. Eftir að hafa valtað yfir Ishøj, 25-9, í fyrstu hrinunni slökuðu Marienlyst aðeins á og töpuðu annarri hrinunni 23-25. Marienlyst unnu hins vegar næstu hrinur 25-21 og 25-14 og leikinn þar með 3-1.

Eins og í leik Valþórs er því miður engin tölfræði aðgengileg úr þessum leik.