[sam_zone id=1]

Calais tapaði toppslagnum gegn Maizieres Metz

Það var toppslagur í fyrsta leik Calais á nýju ári. Hafsteinn Valdimarsson var mættur aftur til Frakklands eftir að hafa spilað með landsliðinu í síðustu viku.

Calais hóf leikinn af krafti og eftir jafna byrjun seig lið Calais fram úr með góðum uppgjöfum og sterkri hávörn. Calais vann á endanum fyrstu hrinuna 25-20.

Maizieres Metz voru þó ekki á því að gefast upp og gáfu þær í í næstu hrinum. Þeir settu meira púður í uppgjafirnar og áttu Calais oft í miklum vandræðum með móttöku sína vegna þess. Tvær næstu hrinur spiluðust svipað þar sem Metz náði fínu forskoti um miðja hrinuna áður en Calais komu með áhlaup í lok hrinunnar í bæði skiptin var það þó aðeins of seint og unnu Metz aðra hrinuna 25-22 og 25-21.

Heimaliðið var því komið með bakið upp að vegg og þurfti sigur í næstu hrinu til að tryggja oddahrinu í leiknum. Leikmenn Calais mættu ákveðnir til leiks í þessari hrinu og voru staðráðnir í því að fara í fimm hrinur. Calais komst um miðja hrinu 4 stigum yfir 14-10 og voru í góðri stöðu. Metz náði þó að minnka forskot heimamanna og úr varð æsispennandi hrina. Nokkur vafaatriði voru í lok hrinunnar og hafði dómarinn í nægu að snúast við að halda mönnum á mottunni, en bæði lið fengu gula spjaldið í leiknum í dag. Calais vann þó að lokum hrinuna 25-23 og tryggði oddahrinu.

Oddahrinan spilaðist eins og hinar hrinurnar sem Metz unnu, þeir náðu fljótlega góðu forskoti og lenti Calais í því að elta gestina nánast frá byrjun. Calais voru þó nálægt því að sigra hrinuna í lokinn og fengu góð tækifæri til þess en að lokum voru það Metz sem voru sterkari og unnu 15-13.

Eftir þennan leik er Calais enn í efsta sætinu með 28 stig en lið Maizieres Metz er í öðru sætinu stigi á eftir og á leik til góða.

Hafsteinn lék allan leikinn með liði Calais í dag og átti hann fínan leik í dag en hann var sérstaklega sterkur í hávörninni þar sem hann stoppaði liðsmenn Metz oft þar.

Úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.