[sam_zone id=1]

Vantaði lítið upp á hjá körlunum

Íslenska karlalandsliðið lauk keppni nú í kvöld, í undankeppni EM þegar liðið spilaði gegn Slóvakíu í Digranesi. Fyrri leikur liðanna fór fram 15. ágúst í Slóvakíu sem heimamenn unnu 3-0 (25-7, 25-15, 25-17).

Slóvakarnir voru fyrir leikinn á toppi riðilsins og höfðu tryggt sig áfram í lokakeppni EM, hafandi einungis tapað einum leik í riðlinum á móti Svartfjallalandi.  

Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Theódóri Óskari Þorvaldssyni og Ævari Frey Birgissyni á köntunum, Kristjáni og Hafsteini Valdimarssonum á miðjunum, Mána Matthíassyni í uppspili, Alexander Arnari Þórissyni í díó og Ragnari Inga Axelssyni í stöðu frelsingja. 

Fyrsta hrina byrjaði frekar jafnt en lið Slóvakíu leiddi leikinn framan af með tveimur til þremur stigum. Í stöðunni 13-10 tók Christophe Achten þjálfari íslenska liðsins leikhlé. Gestirnir juku forskotið jafnt og þétt, en íslensku strákarnir áttu góða kafla. Christophe tók seinna leikhléð í hrinunni í stöðunni 21-15 fyrir Slóvökum. Slóvakar unnu svo hrinuna 25-18. 

Slóvakar byrjuðu aðra hrinu af krafti með sterkum uppgjöfum, en íslenska liðið jafnaði 6-6. Eftir það var svo gott sem jafnt á öllum tölum þangað til Slóvakarnir komust í 12-10. Þeir bættu síðan í smám saman og Ísland tók síðara leikhlé hrinunnar í stöðunni 20-13. Íslenska liðið átti ágætis sprett undir lokinn sem dugði þó ekki til og endaði hrinan 25-18 fyrir gestina.

 Þriðja hrina byrjaði með tveimur íslenskum blokkum 2-0. Slóvakar náðu að jafna í 3-3 og fyrirliði íslenska liðsins, Hafsteinn Valdimarsson, nældi sér í gult spjald eftir spjall við dómarann. Jafnt var á öllum tölum eftir það þangað til gestirnir komust yfir 11-9. Ísland tók leikhlé í stöðunni 13-9. Eftir það kom góður kafli hjá íslensku strákunum sem náðu að minnka muninn í 18-19. Slóvakarnir áttu hins vegar betri lokasprett og kláruðu hrinuna 25-20 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstur íslenska liðsins var Theódór Óskar Þorvaldsson með 14 stig.

Hafsteinn Valdimarsson var nokkuð brattur eftir leikinn. ,,Við stóðum í þeim í dag og vorum nálægt þeim, sérstaklega í síðustu hrinunni. Þeir eru með betri gæði en við, það komu nokkrar góðar uppgjafir og blokkir frá þeim og það er það sem sker úr á milli.”

Hann er ánægður með undankeppnina í heild. ,,Við byrjuðum kannski dálítið hægt í fyrstu leikjunum, enda nýr þjálfari og margir nýjir leikmenn. En við höfum farið vaxandi og síðustu þrír leikir voru fínir þar sem við spiluðum betur og vorum stöðugri.”

Næst á dagskrá hjá liðinu eru Smáþjóðaleikar í sumar. ,,Við stefnum á verðlaun þar og þetta var hluti af þeim undirbúningi,” segir Hafsteinn að lokum.

Mynd: A & R Photos