[sam_zone id=1]

Belgarnir sterkari í Digranesi

Rétt í þessu lauk síðasta leik íslenska kvennalandsliðsins í undankepnni EM, sem var á móti Belgíu. Fyrri leikur liðanna fór fram í Belgíu 15. ágúst sl. sem endaði með 3-0 sigri Belga (25-4, 25-8, 25-10). Belgarnir hafa ekki tapað hrinu á mótinu og því vitað að leikurinn í dag yrði erfiður. 

Byrjunarlið íslands var skipað þeim Matthildi Einarsdóttur í uppspili og Heiðu Elísabetu Gunnarsdóttur í díó. Elísabet Einarsdóttir og Líney Ingu Guðmundsdóttur á köntunum og Erlu Rán Eiríksdóttur og Hönnu Maríu Friðriksdóttur á miðjunum og Birtu Björnsdóttur í stöðu frelsingja. Þetta var jafnframt fyrsti leikur Erlu Ránar sem fyrirliði.

Í fyrstu hrinu var jafnt í 1-1 og 2-2 en eftir það sigu gestirnir fram úr. Í stöðunni 7-2 fyrir Belgum tók Borja, þjálfara íslenska liðsins, leikhlé. Belgarnir héldu áfram að auka við forskotið þangað til Borja tók sitt síðara leikhlé í hrinunni í stöðunni 13-2. Gestirnir gáfu ekkert eftir og kláruðu hrinuna örugglega 25-4. 

Önnur hrina byrjaði svipað og náðu Belgar fljótlega góðu forskoti. Borja tók leikhlé í stöðunni 8-2 fyrir Belgum og aftur í 11-2. Það truflaði Belgana lítið sem sýndu mikla yfirburði í hrinunni. Gestirni gerðu þó fleiri mistök en í fyrstu hrinu sem kom stelpunum okkar vel og endaði hrinan 25-7. 

Þriðja hrina þróaðist eins og fyrri tvær.  Belgarnir náðu góðu forskoti, en mikið var um skemmtilegar og öflugar skorpur inn á milli þar sem rétt vantaði herslumuninn á að stigið yrði íslenskt.  Gestirnir unnu hrinuna 25-6 og þar með leikinn 3-0.

Erla Rán fyrirliði liðsins sagði eftir leikinn að það hefði verið gaman að spila á móti svona sterku liði þó svo að stigin hefðu mátt vera fleiri. ,,Aðaláherslan var bara að spila okkar leik og á okkar tempói. Við hefðum getað gert betur, það vantaði svolítið upp á móttökuna. Síðan er erfitt að sækja á móti svona leikmönnum sem eru miklu hærri en við í blokk.” Hún segir að svona leikur sé góður í reynslubankann. ,,Það er líka svo gaman fyrir áhorfendur að sjá svona góða blakara, en leiðinlegt að við héldum ekki betur í við þær.”

Mynd: A & R Photos