[sam_zone id=1]

Landsliðin spila á morgun

Á morgun, miðvikudag, spila bæði landslið Íslands síðustu leiki sína í undankeppni EM sem liðin taka nú þátt í, í fyrsta skipti. 

Konurnar mæta Belgum sem eru í 7. sæti evrópska styrkleikalistans klukkan 17 og karlarnir mæta Slóvakíu sem eru í 14. sæti evrópska styrkleikalistans klukkan 20. Báðir leikirnir fara fram í Digranesi. 

Íslensku liðin eru bæði á botninum í sínum riðlum án stiga. Bæði gestaliðin hafa hins vegar nú þegar tryggt sér þátttökurétt á EM 2019. Belgíska liðið hefur unnið alla sína leiki 3-0, en auk Íslands voru í riðlinum Slóvenía og Ísrael. Slóvakíska liðið tapaði fyrsta leik sínum í undankeppninni sem var á móti Svartfjallalandi en hefur unnið alla leiki síðan sem voru á móti Íslandi og Moldóvu. 

Blakfréttir náðu tali af þjálfurum liðanna til að athuga stemninguna fyrir leikjunum.

Borja González Vicente, þjálfari íslenska kvennaliðsins, segir að áhugi og metnaður liðsins fyrir undanfarna leiki hafi verið mjög mikill. Yngri leikmenn séu að stíga upp sem sé nauðsynlegt og enn meiri hvatning fyrir liðið. Hann segir jafnframt að örlítil þreyta sé farin að segja til sín, sem sé þó skiljanlegt fyrir leikmenn sem eru ekki atvinnumenn og þess vegna þurfi að skipuleggja æfingar vel til að dreifa álaginu. ,,Við vitum að belgíska liðið er það sterkasta í riðlinum og ætlum við að reyna að njóta þess að spila leikinn. Okkar aðaláhersla er að öðlast reynslu fyrir framtíðina,” segir Borja.

Þjálfari belgíska liðsins er Gert Van De Broek. Um undankeppnina segir hann að þó að liðið hafi ekki tapað hrinu þýði það ekki að þetta hafi verið auðvelt þar sem nokkrar hrinur hafi verið tæpar. Gert er mjög ánægður að vera á toppi riðilsins með lið sem er mjög ungt, en meðalaldurinn er 21 ár. Hann býst við að rótera liðinu þó nokkuð á morgun og leyfa yngri leikmönnum að spreyta sig, þar sem liðið er nú þegar komið áfram. 

Christophe Achten, þjálfari íslenka karlalandsliðsins segist vilja gera betur en í síðasta leik á móti Slóvakíu sem Slóvakía vann 3-0 (25-7, 25-15, 25-17). Sá leikur fór fram í Slóvakíu 15. ágúst sl. ,,Slóvakía er besta liðið í riðlinum og strákarnir verða að reyna að njóta að spila á móti liði með jafn öflugum leikmönnum innanborðs.” Hann talar einnig um að aðaláherslan fyrir íslenska liðið séu Smáþjóðaleikarnir í sumar og muni leikurinn á morgun nýtast sem góð reynsla fyrir þá keppni. 

Andrej Kravarik þjálfari Slóvakíu segir liðið vera vel undirbúið fyrir leikinn á morgun. Hann segir íslenska liðið vanta reynslu og að það taki nokkur ár að byggja upp lið til að spila á þessu getustigi. Þrátt fyrir að getumunur sé ef til vill til staðar á liðunum ætlar hann ekki að gefa neitt eftir á lokametrunum. Hann vill klára undankeppnina almennilega til að sýna öllum að toppsætið sem þeir verma, sé verðskuldað.

Blakfréttir.is hvetja alla til að mæta í Digranes á morgun og hvetja landsliðsfólkið okkar áfram. 

Áfram Ísland!