[sam_zone id=1]

U16 ára lið stúlkna endaði í 6.sæti í Færeyjum

Stúlknalandslið Íslands skipað leikmönnum yngri en 16 ára spilaði í dag lokaleik sinn á Evrópumóti N-Evrópu þjóða sem fór fram í Færeyjum.

Stelpurnar mættu í dag Írlandi í leik um 5.sætið en þar höfðu þær írsku betur 3-1 (25-13, 7-25, 25-23, 25-18)

Íslensku stelpurnar enda því í 6. og neðsta sæti en koma heim reynslunni ríkari enda gífurlega mikilvægt fyrir leikmenn á þessum aldri að fá að spila eins mikið og hægt er við aðrar þjóðir.

Lárus Jón Thorarensen aðstoðarþjálfari Íslands segir að leikurinn hafi byrjað með smá stressi sem stelpurnar hafi hinsvegar hrisst af sér í annari hrinu þar sem þær stungu þær írsku af.

” Byrjaði á smá stressi fyrsta hrina fór ekki alveg nógu vel. Strax í hrinu 2 byrjuðu stelpurnar með látum og stungu af snemma og hægðu ekkert á. 3 hrina var rússíbani alla leið. Okkar stelpur eltu meirihlutann en söxuðu jafnt og þétt á forskotið og komust úr 24-18 í 24-23 með frábærum liðsanda og baráttu. 4 hrinan segir ekki alveg sanna sögu, en stelpurnar spiluðu með hjartanu og stóðu sig frábærlega og því svekkjandi að fara ekki í oddinn.”

Lárus segir að mótið fari í reynslubankann hjá stelpunum sem voru að spila sína fyrstu landsleiki.

“Þetta mót hefur verið svaka innspýting fyrir stelpurnar okkar og svakalega stór skref sem þær hafa tekið frá fyrsta leik fram í þann síðasta. Þær lögðu sig stórkostlega fram og sýndu mikinn þroska, liðsheild og leikgleði sem óx frá hrinu til hrinu. Smá súrt að vera ekki hærra á töflunni miðað við gæði og karakter en það er algjört aukaatriði miðað allt sem þær og við öll fáum í reynslubankann eftir þetta mót!”